Cleverly hefur í hótunum við Skota vegna Katrínar

James Cleverly á ráðstefnu í Manchester fyrr í mánuðinum. Honum …
James Cleverly á ráðstefnu í Manchester fyrr í mánuðinum. Honum gremst framganga skoska forsætisráðherrans gróflega. AFP/Justin Tallis

James Cleverly, utanríkisráðherra Bretlands, hótar að afnema fjárstuðning við ráðherra Skoska þjóðarflokksins, SNP, á ferðum þeirra utan Skotlands í kjölfar þess er skoski forsætisráðherrann Humza Yousaf bannaði breskum sendierindrekum að sitja fund með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra á svokallaðri Loftslagsviku, eða Climate Week, í New York í september.

Boðaði Cleverly að embættismenn á vegum ráðuneytis hans kæmu því til skila til stjórnvalda móttökuríkja breskra erindreka að ráðuneytið teldi óviðeigandi að ráðherrar SNP funduðu með fulltrúum þeirra sömu stjórnvalda án þess að breskur sendifulltrúi væri viðstaddur.

Hætti skipulagningu funda

Frá þessu greinir breska dagblaðið The Telegraph sem enn fremur kveðst hafa séð bréf Cleverly til skosku ríkisstjórnarinnar þar sem hann lýsir vonbrigðum sínum yfir þeirri hindrun sem Yousaf lagði fyrir breskan sendierindreka á fundinum sem Katrín sat í New York.

Í bréfinu sagði forsætisráðherra það sérstaklega mikilvægt að tryggja að Bretland sendi „skýr og samhljóma skilaboð til alþjóðlegra samstarfsaðila okkar“ og héldu ráðherrar SNP uppteknum hætti hvað breska erindreka snerti legði hann fyrir sína embættismenn að hætta skipulagningu funda skoskra ráðherra með ráðherrum annarra þjóða.

Átta heimsóknir ráðherra SNP til erlendra ríkja eru á dagskrá það sem eftir lifir árs, þar á meðal heimsókn Yousaf forsætisráðherra til Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og Delí á Indlandi.

Gagnrýni bresk stjórnvöld á laun

Í apríl áréttaði Cleverly við breska sendierindreka erlendis að utanríkisráðuneytið skyldi vera með í ráðum í öllum viðræðum við SNP. Þrátt fyrir þennan áskilnað kom Yousaf í veg fyrir viðveru breska erindrekans á fundinum í New York og kveðst Cleverly ákaflega vonsvikinn yfir því útspili skoska ráðherrans.

Varar Cleverly skoska utanríkisráðherrann Angus Robertson sérstaklega við í bréfi sínu og bendir honum á að frekari fundahindranir muni hafa afleiðingar í för með sér. „Væntingar mínar um það hvernig heimsóknir á borð við þessa [í New York] skuli fara fram eru óbreyttar,“ skrifar Cleverly en Robertson heldur því hins vegar fram að tilskipun Cleverly í apríl snúist um „vandamál sem er ekki til“ og kveðst þeirrar skoðunar að raunverulegt ætlunarverk breska starfsbróðurins sé að „ritskoða“ ráðherra SNP.

Hefur The Telegraph það eftir ónafngreindum heimildarmönnum innan breska stjórnkerfisins að skoska ríkisstjórnin notfæri sér fundi á alþjóðavettvangi til að blóta breskum stjórnvöldum á laun, ýta undir viðræður um sjálfstæði Skotlands og gagnrýna Brexit, útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert