Mun óska fordæmalausrar aðstoðar við Ísrael

Joe Biden flutti ávarp í Tel Avív nú fyrir stundu.
Joe Biden flutti ávarp í Tel Avív nú fyrir stundu. AFP

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, kveðst munu biðja Bandaríkjaþing um „fordæmalausa“ aðstoð við Ísrael síðar í vikunni.

Þetta fullyrti hann í sjónvörpuðu ávarpi í Ísrael rétt í þessu.

Forsetinn sagði ekkert framar í forgangi en að leysa úr haldi þá gísla sem hryðjuverkamenn Hamas tóku höndum og færðu inn á Gasasvæðið.

Varaði við endurtekningu mistaka Bandaríkjanna

Hann varaði þó stjórnvöld landsins við því, að endurtaka ekki sömu mistök og Bandaríkin gerðu í kjölfar hryðjuverkanna 11. september 2001.

Bað hann Ísraela að blindast ekki af reiði í kjölfar þessarar mannskæðustu árásar í sögu landsins.

„Eftir 11. september, þá vorum við heltekin reiði í Bandaríkjunum. Og þó að við sæktumst eftir réttlæti, og fengum réttlæti, þá gerðum við einnig mistök,“ sagði Biden í útsendingunni frá Tel Avív.

Ísrael samþykkt mannúðaraðstoð

Kvað hann Ísrael hafa samþykkt að hleypa mannúðaraðstoð inn á Gasasvæðið jafnvel þótt aðgerðum hersins hafi enn ekki linnt.

„Ísrael hefur samþykkt að mannúðaraðstoð geti byrjað að fara frá Egyptalandi og inn í Gasa,“ sagði Biden og bætti við að Bandaríkin ynnu að því með bandamönnum sínum að koma „vörubílum yfir landamærin eins fljótt og unnt er.“

Loks sagði hann krísuna aðeins hafa styrkt trú sína á tveggja ríkja lausnina í málefnum Ísraels og Palestínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert