Segir Hamas fremja tvöfaldan stríðsglæp á degi hverjum

Benjamín Netanjahú og Joe Biden á fundi sínum í dag.
Benjamín Netanjahú og Joe Biden á fundi sínum í dag. AFP

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, segir að allri heimsbyggðinni ætti að misbjóða hvernig hryðjuverkasamtökin Hamas hafa hegðað sér, eftir sprenginguna við sjúkrahúsið í Gasa sem er sögð hafa orðið hundruðum að bana.

Á fundi með Joe Biden Bandaríkjaforseta í Ísrael í dag sagði Netanjahú að Hamas bæri ábyrgð og ætti að gjalda fyrir hvert einasta mannfall úr röðum óbreyttra borgara, þar á meðal þeirra sem létust eftir sprenginguna í gærkvöldi.

Hneykslanin ætti að beinast að hryðjuverkamönnunum

„Á hverjum degi fremja þau tvöfaldan stríðsglæp, þegar þau beina skotum sínum að borgurum okkar á meðan þau fela sig á bak við sína eigin,“ sagði Netanjahú.

Vísaði hann til sprengingar gærkvöldsins og sagði: „Allri heimsbyggðinni var réttilega misboðið en sú hneykslan ætti ekki að beinast að Ísrael, heldur hryðjuverkamönnunum.“

Í Palestínu hafa embættismenn fullyrt að loftárás Ísraela hafi valdið sprengingunni. Ísrael hefur á móti hafnað að bera ábyrgð og segja stjórnvöld þar að misheppnað eldflaugarskot vígasamtakanna Íslamsks jíhads hafi átt sökina. Sá hópur hefur einnig neitað sök, að því er dagblaðið Telegraph greinir frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert