Skemmdir unnar á öðrum fjarskiptastreng

Skemmdarverk var einnig unnið á gasleiðslu og fjarskiptastreng milli Finnlands …
Skemmdarverk var einnig unnið á gasleiðslu og fjarskiptastreng milli Finnlands og Eistlands fyrr í mánuðinum. AFP

Sænsk stjórnvöld segja skemmdir hafa verið unnar á fjarskiptastreng sem liggur milli Svíþjóðar og Eistlands í Eystrasalti.

Politico, Reuters og fleiri miðlar greina frá.

Á blaðamannafundi sagði Carl-Oskar Bohlin, ráðherra almannavarnamála í Svíþjóð, að skemmdir hefðu verið unnar á hluta strengjarins og að hann hefði ekki farið í sundur.

Þetta er í annað skiptið á stuttum tíma sem tilkynnt hefur verið um slíkt skemmdarverk á þesum slóðum en fyrr í mánuðinum tilkynntu finnsk stjórnvöld að skemmdir hefðu verið unnar á Balticonnector-gasleiðslu og fjarskiptastreng sem liggur samhliða, milli Eistlands og Finnlands. 

Þá er rúmt ár liðið frá því að skemmd­ar­verk voru unn­in á Nord Stream-gas­leiðslunum í Eystrasalti sem liggja frá Rússlandi til vest­rænna ríkja.

Gerðist á svipuðum tíma

Er talið að skemmdarverkin í Eystrasalti hafi verið unnin á svipuðum tíma.

„Í augnablikinu getum við ekki sagt hvað olli skemmdunum en við getum sagt að það gerðist á svipuðum tíma og fyrri skemmdarverk,“ sagði Bohlin á miðlinum X í kjölfar blaðamannafundar.

Finnsk stjórnvöld hafa varað fólk við að draga ályktanir á meðan málið er rannsakað. Ekki hefur þó verið útilokað að rússnesk stjórnvöld tengist skemmdarverkunum með einhverjum hætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert