„Bandaríkjamenn syrgja með ykkur,“ sagði Joe Biden Bandaríkjaforseti við Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, á fundi leiðtoganna sem stendur nú yfir.
Sagði forsetinn Hamas-vígasamtökin einungis hafa kallað þjáningu yfir Palestínumenn og að það liti allt út fyrir að ábyrgðin á sprengingunni við sjúkrahúsið í gær lægi hjá „hinu liðinu“.
„Ég var mjög hryggur og reiður yfir fregnum af sprengingunni á spítalanum á Gasa í gær. Og miðað við það sem ég hef séð þá virðist sem árásin hafi verið framin af hinu liðinu.“
Netanjahú tók undir orð forsetans og lagði áherslu á að hinn siðmenntaði heimur yrði að sameinast gegn Hamas.
Biden lenti í Ísrael skömmu fyrir klukkan ellefu að staðartíma í morgun. Fjöldi þungvopnaðra lögreglumanna og hermanna stendur nú vörð um hótelið þar sem leiðtogarnir funda.