65 lögregluþjónar særðir í Berlín: „Brennið allt“

Skoteldar springa við lögreglubifreið í Berlín í gærkvöldi.
Skoteldar springa við lögreglubifreið í Berlín í gærkvöldi. AFP

Alls eru 65 þýskir lögregluþjónar særðir eftir að hafa verið kallaðir út á samstöðufund með Palestínumönnum í höfuðborginni Berlín í nótt, þar sem loftárásum Ísraels á Gasasvæðið var mótmælt.

Yfirvöld í Þýskalandi greina nú frá þessu, en mótmælendur virtu að vettugi bann við slíkum mótmælafundum.

Lögregluþjónarnir særðust eftir steinakast, eldfiman vökva og annars konar andspyrnu af hálfu mótmælenda, að því er segir í tísti lögreglunnar frá í nótt.

Lögregla tekur mótmælanda höndum í Berlín í gær.
Lögregla tekur mótmælanda höndum í Berlín í gær. AFP

Hófst seint í gærkvöldi

Talskona lögreglunnar segir að alls hafi 174 verið teknir höndum, en rannsókn muni einkum beinast að 65 manns úr þeim hópi.

Samstöðufundurinn hófst seint í gærkvöldi í Neukölln, hverfi sem hýsir stórt samfélag Araba.

Dagblaðið Bild segir ákall hafa borist um Telegram-rásir, þar sem kallað var eftir því að „menn“ myndu „breyta Neukölln í Gasa. Brennið allt“.

Þegar lögregla skipaði mótmælendum að tvístrast brugðust þeir við með því að færa ruslatunnur og aðrar hindranir á göturnar. Vörpuðu þeir einnig steinum og skoteldum að lögreglu, sem svaraði með því að sprauta á þá vatni.

Lögregluþjónn ræðir við mótmælanda sem neitaði að færa sig fyrir …
Lögregluþjónn ræðir við mótmælanda sem neitaði að færa sig fyrir utan utanríkisráðuneytið í Berlín í gær. AFP

Tilvikum gyðingahaturs snarfjölgað

Frá því Ísrael hóf loftárásir á Gasa til að svara fyrir hrottaleg hryðjuverk Hamas-samtakanna þann 7. október, hafa samstöðufundir með Palestínu sprottið fram í mörgum af stærstu borgum Þýskalands, þrátt fyrir víðtækt bann við slíkum fundum.

Tilvikum gyðingahaturs hefur einnig snarfjölgað. Bænahús gyðinga í Berlín mátti þola mólotov-kokteila snemma í gær.

Kanslarinn Olaf Scholz hvatti yfirvöld í dag til að koma í veg fyrir mótmæli sem gætu snúist upp í æsing sem fæli í sér gyðingahatur.

Samkomur þar sem „vígorð gegn gyðingum eru upphrópuð, þar sem dauðsföllum annarra manneskja er fagnað“ – þær  verður að banna, sagði Scholz.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert