Bandaríkin enn fyrirmynd fyrir heiminn

Biden fjallaði um stríðsátökin í Úkraínu og fyrir botni Miðjarðarhafs …
Biden fjallaði um stríðsátökin í Úkraínu og fyrir botni Miðjarðarhafs í ávarpi sínu. AFP/Jonathan Ernst

Joe Biden Bandaríkjaforseti ávarpaði nú fyrir stundu bandarísku þjóðina og ræddi um nauðsyn þess að Bandaríkin styddu við bæði Ísrael og Úkraínu.

Þetta var einungis í annað sinn á kjörtímabilinu sem Biden ákvað að ávarpa þjóð sína frá skrifborði sínu í forsetaskrifstofunni, en Bandaríkjaforsetar hafa einkum nýtt slík ávörp á „ögurstundu“ þegar þeir telja að skilaboð sín eigi sérstakt erindi við almenning eða skipti þjóðarheill miklu máli.

Biden líkti Hamas-samtökunum og Rússlandi saman í ræðu sinni og sagði að þó að ógnin sem stafaði af Hamas annars vegar og Vladimír Pútín Rússlandsforseta hins vegar væri ólík, þá ættu þau það sameiginlegt að vilja útrýma lýðræðislegu nágrannaríki.

„Sagan hefur kennt okkur að þegar hryðjuverkamenn gjalda ekki fyrir ódæði sín og þegar einræðisherrar þurfa ekki að svara fyrir árásir sínar valda þeir meiri ringulreið og dauða,“ sagði Biden meðal annars í ræðu sinni. Sagði hann jafnframt að ef Pútín yrði ekki stöðvaður í Úkraínu myndi hann halda áfram að ráðast á önnur ríki.

Fjárfesting til framtíðar Bandaríkjanna

Biden tilkynnti í ræðu sinni að hann myndi senda Bandaríkjaþingi beiðni um fjármögnun til þess að hjálpa bæði Úkraínu og Ísrael, auk annarra mikilvægra bandamanna. Sagði Biden það vera fjárfestingu til að tryggja stöðu Bandaríkjanna til framtíðar sem leiðtoga á alþjóðavettvangi.

Þetta var einungis í annað sinn sem Biden ávarpar þjóð …
Þetta var einungis í annað sinn sem Biden ávarpar þjóð sína frá forsetaskrifstofunni. AFP/Brendan Smialowski

Biden nefndi engar fjárhæðir í því sambandi, en fjölmiðlar vestanhafs gerðu ráð fyrir að þær yrðu um það bil 105 milljarðar bandaríkjadala, eða rúmlega 14.500 milljarðar íslenskra króna. Þar af færi um 60 milljarðar dala til Úkraínu, 14 milljarðar til Ísraels, 10 milljarðar í mannúðaraðstoð, auk þess sem gert væri ráð fyrir um 14 milljörðum dala til að treysta öryggi á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó og um 7 milljörðum til að styðja við bandamenn Bandaríkjanna á Indlands- og Kyrrahafi, þar á meðal Taívan.

„Það er snjöll fjárfesting sem mun auka öryggi Bandaríkjanna í margar kynslóðir,“ sagði Biden. „Forysta Bandaríkjanna er það sem heldur heiminum saman. Bandalög Bandaríkjanna eru það sem heldur okkur, Bandaríkjunum, öruggum. Bandarísk gildi gera okkur að þjóð sem önnur ríki vilja vinna með,“ sagði Biden. „Bandaríkin eru leiðarljós heimsins. Enn þá,“ bætti hann við.

Hvatti til samstöðu gegn ytri ógn

Biden vék ekki í ræðu sinni að stöðunni á Bandaríkjaþingi, þar sem fulltrúadeildin hefur verið án þingforseta í tvær vikur eftir að Kevin McCarthy, leiðtogi Repúblikana var felldur með vantrauststillögu. Hann sagði hins vegar að Bandaríkjamenn mættu ekki láta flokkadrætti koma í veg fyrir að þeir sinntu ábyrgð sinni sem ein af stórþjóðum heimsins.

„Það er á stundum sem þessum sem við þurfum að muna hverjir við erum. Við erum Bandaríkin, Bandaríkin, og það er ekkert, ekkert sem er handan getu okkar ef við gerum það saman,“ sagði Biden í lokaorðum ræðu sinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert