Gruna áhöfn kínversks skips um skemmdarverkið

Skemmdarverk var unnið á gasleiðslu milli Finnlands og Eistlands í …
Skemmdarverk var unnið á gasleiðslu milli Finnlands og Eistlands í mánuðinum. AFP

Lögregluna í Finnlandi grunar að kínverskt skip tengist skemmdarverkunum sem unnin voru á gas­leiðslu milli Eistlands og Finnlands í mánuðinum.

Eftir að þrýst­ing­ur í gasleiðslunni féll var henni lokað þann 8. október. Yfirvöld í Helsinki hafa síðan þá rannsakað bilunina sem þau segja að hafi orðið vegna „utanaðkomandi“ starfsemi.

„Ferðir skipsins Newnew Polar Bear, sem siglir undir flaggi Hong Kong, ríma við tíma og staðsetningu skemmdarverksins á gasleiðslunum,“ segir í tilkynningu frá lögregluyfirvöldum í Finnlandi.

Vinna með Kína til að komast til botns í málinu

„Við munum vinna saman með kínverskum yfirvöldum til þess að staðfesta tilgang skipsins,“ er haft eftir Risto Lohi rannsóknarlögreglumanni í tilkynningunni.

Lögreglan staðfestir einnig að skemmdirnar hafi verið unnar af „utanaðkomandi vélknúnu afli“ og að yfirvöld hafi fundið „þungan hlut“ nálægt gasleiðslunni.

„Nýlega mynduð mengunarþyrping sem inniheldur líklega gífurlega þungan hlut hefur fundist á sjávarbotninum,“ segir Lohli.

Lögreglan mun reyna að lyfta hlutnum frá botni sjávar til þess að rannsaka hvort hann tengist skemmdarverkunum á gasleiðslunni. Talið er að það taki að minnsta kosti fimm mánuði að gera við leiðsluna.

Skemmdarverk unnin á fjarskiptastreng

Á síðasta ári voru skemmd­ar­verk unn­in á þrem­ur gas­leiðslum frá Rússlandi til vest­rænna ríkja. Hefur úkraínski her­inn verið sagður hafa unnið skemmdarverkið.

Einnig var greint frá því í vikunni að sænsk stjórn­völd segðu skemmd­ir hafa verið unn­ar á fjar­skipt­a­streng sem ligg­ur milli Svíþjóðar og Eist­lands í Eystra­salti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert