Meloni skildi við manninn eftir vafasöm ummæli

Giorgia Meloni, forsætisráðherra Ítalíu.
Giorgia Meloni, forsætisráðherra Ítalíu. AFP/Ludovic Marin

Forsætisráðherra Ítalíu, Giorgia Meloni, er skilin við manninn sinn, Andrea Giambruno, eftir um átta ára samband.

Meloni tilkynnti um skilnaðinn á samfélagsmiðlum, nokkrum klukkustundum eftir að fjallað var um ummæli sem Giambruno lét falla um samstarfskonur sínar, í þættinum Striscia La Notizia. Giambruno starfar sjálfur sem þáttastjórnandi, en ummælin lét hann falla utan útsendingar.

BBC greinir frá. 

Meloni segir leiðir þeirra hafa legið í ólíkar áttir í langan tíma og að nú hafi verið kominn tími til að viðurkenna það. Saman eiga þau sjö ára dótturina Ginevra og í færslu sinni þakkaði Meloni Giambruni fyrir að hafa gefið sér það mikilvægasta í lífinu, dóttur þeirra.

Daðraði við kvenkyns samstarfskonur sínar

Fjallað var um hegðun og ummæli Giambruni í sjónvarpsþættinum fyrr í vikunni og sýnt myndbrot þar sem hann virðist daðra við samstarfskonu sína með því að segja: „Þú ert svo sniðug... hvers vegna hittumst við ekki fyrr?“

Það var síðan aftur fjallað um hegðun og ummæli Giambruni í þætti gærdagsins. Að þessu sinni var myndbrotið skýrara, en í því heyrist Giambruno spyrja aðra samstarfskonu sína hvort hún sé einhleyp eða í opnu sambandi.

Þá heyrist hann jafnframt státa sig af því að hann hafi haldið fram hjá konunni sinni og að allir hjá Mediaset, sjónvarpsfyrirtækinu sem hann starfar hjá, viti það „og nú þú líka,“ segir hann við samstarfskonu sína áður en hann vitnar til hópkynlífs með svívirðilegum hætti.

„Ætlarðu að slást í hópinn okkar, vinnuhópinn okkar?“ segir hann við umrædda samstarfskonu. Þá heyrist einhver spyrja: „Hvað ef Striscia hefur tekið þig upp?“ og hann svarar: „Hvað sagði ég sem er svona slæmt? Við erum að hlæja, við erum að grínast.“

Ekki fyrsti uslinn sem Giambruni veldur

Giambruni hefur enn ekki tjáð sig um færslu forsætisráðherra á samfélagsmiðlum eða ummæli hans utan útsendingar. Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem hann veldur usla því fyrir nokkrum mánuðum var Giambruni að tjá sig um hópnauðgunarmál og sagði:

„Ef þú ferð út að dansa hefur þú fullan rétt á því að verða fullur. En ef þú forðast að verða drukkinn og að verða meðvitundarlaus [af drykkju], þá myndir þú kannski líka geta forðast það að lenda ákveðnu veseni, af því að það er þá sem þú finnur úlfinn.“

Í kjölfar þeirra ummæla sagði Meloni að orð hans hefðu verið rangtúlkuð og bað hún fréttamiðla um að gera hana ekki ábyrga fyrir ummælum sem Giambruni lætur falla í störfum sínum.

Meloni er þekkt fyrir sterka trú sína á hefðbundnum kaþólskum fjölskyldugildum auk þess sem hún talar gegn samböndum samkynhneigðra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert