Donald Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, hefur verið gert að greiða 5 þúsund bandaríkjadala sekt fyrir brot á tjáningarbanni í einkamáli sínu.
Arthur Engoron, dómari í einkamáli Donalds Trumps, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, hafði bannað öllum sem koma að málinu að tjá sig um starfsfólk dómstólsins.
New York Times segir frá því að bannið hafi tekið gildi þann 3. október í kjölfar niðrandi myndar sem Trump birti á samfélagsmiðlum af starfsmanni dómstólsins, Allison Greenfield, ásamt öldungadeildarþingmanninum Chuck Schumer.
Á myndinni var Greenfield titluð sem „kærasta Schumers“ og sagði Trump að það væri hún sem stefndi honum fyrir dóm. Talsmaður Schumers hefur sagt færsluna vera „hlægilega, fáránlega og falska“ og bent á að Schumer og Greenfield þekkist ekki.
Þegar Engoron dómari setti Trump í tjáningarbann í málinu var færslunni eytt af samfélagsmiðli forsetaframbjóðandans, Truth Social, en afriti af færslunni var aftur á móti ekki eytt af konsingabaráttusíðu Trumps. Engoron hefur sennilega ekki orðið var við það fyrr en í vikunni, þar sem henni var loks eytt í gærkvöldi.
Christofer Kise, lögmaður Trumps, sagði í dómssal að vegna „óaðgætni“ hafi færslunni ekki verið eytt en Kise baðst afsökunar fyrir hönd skjólstæðings síns.
Þá benti Engoron á að hann hefði ítrekað „nokkuð skýrt að persónulegar árásir að starfsfólki míns dómstóls eru óviðunandi, óviðeigandi og ég mun ekki láta þær viðgangast að nokkru leyti“. Bætti hann þá við að færslan „hafði meira að segja verið á vefsíðunni síðustu 17 daga“ og síðan fjarlægð eftir að fyrirspurn barst frá dómstólnum.