Ísraelski herinn hefur tilkynnt að hann hafi nú fært sprengjuárásir á Gasasvæðið upp á næsta stig, aðeins nokkrum klukkustundum eftir að fyrstu vörubílarnir með hjálpargögn fengu að fara inn á svæðið frá Egyptalandi í suðri.
Herinn segist vilja draga úr mögulegri hættu sem steðjað gæti að fótgönguliðum þegar þeir munu hefja innrás sína í Gasa á næsta stigi stríðsins sem hófst þann 7. október.
Hryðjuverkamenn Hamas-samtakanna drápu þá að minnsta kosti 1.400 manns, einkum borgara sem þeir skutu, aflimuðu eða brenndu til dauða, og tóku fleiri en 200 gísla að sögn ísraelskra yfirvalda.
Ísrael hefur svarað með linnulausum sprengjuárásum, sem að sögn Hamas-samtakanna hafa orðið 4.300 Palestínumönnum að bana, aðallega óbreyttum borgurum.
Tugþúsundir ísraelska hermanna hafa komið sér fyrir við landamærin að Gasa og bíða þar innrásar sem embættismenn hafa lofað að hefjast muni bráðlega.
„Frá og með deginum í dag þá bætum við í árásirnar og minnkum hættuna,“ sagði talsmaður hersins, aðmírállinn Daníel Hagarí, á blaðamannafundi í dag.
„Við þurfum að fara yfir á næsta stig stríðsins við bestu mögulegu aðstæður, ekki samkvæmt því sem einhver annar segir okkur.“