Nærri hundrað þúsund manns komu saman í Lundúnum

Frá samstöðufundinum í Lundúnum í dag.
Frá samstöðufundinum í Lundúnum í dag. AFP

Lögreglan í Lundúnum segir nærri hundrað þúsund manns hafa gengið um götur höfuðborgarinnar til samstöðufundar með Palestínu, en nokkrir slíkir fundir voru haldnir í Evrópu í dag.

Viðstaddir héldu á skiltum þar sem á stóð „Frelsi fyrir Palestínu“, „Hættið að sprengja Gasa“ og „Endið aðskilnaðarstefnu Ísraels“. Margir veifuðu palestínskum fánum og kölluðu á að Palestína skyldi frelsuð.

Frá því hryðjuverkasamtök Hamas réðust til atlögu við Ísrael þann 7. október, þar sem 1.400 manns létu lífið, hefur Ísrael svarað með miklum sprengjuárásum gegn Gasa.

Hryðjuverkasamtökin hafa fullyrt að 4.385 hafi látist af þeim sökum innan Gasasvæðisins.

Sjá mátti ýmiss konar skilti á lofti í mótmælunum.
Sjá mátti ýmiss konar skilti á lofti í mótmælunum. AFP

Ekki hægt að þegja

„Við komum til að sýna fram á stuðning okkar því við getum ekki þagað, horft á fréttirnar, og svo gert ekki neitt,“ hefur fréttastofa AFP eftir Mariam Abdul-Ghani, 18 ára nemanda sem er ættuð frá Palestínu.

David Rosenberg, félagi í hópi sósíalískra gyðinga, segist hafa mætt til fundarins til að „sýna samstöðu og ganga gegn því narratífi sem segir að þetta séu múslimar gegn gyðingum og Palestínumenn gegn Ísraelum“.

„Ég er 65 ára en það er fólk hér á þrítugs- og fertugsaldri, sem hefur alist upp á heimilum gyðinga, sem þolir ekki það sem er víst gert í þeirra nafni,“ bætir hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert