Tala látinna blásin upp og sjúkrahúsið ekki sprengt

Sprengingin sem varð við sjúkrahúsið á þriðjudag var líklega ekki …
Sprengingin sem varð við sjúkrahúsið á þriðjudag var líklega ekki af völdum Ísraelsmanna heldur hryðjuverkamanna. AFP/Al-Tabatibi

Sprengingin sem varð við sjúkrahúsið al-Ahli Arab á þriðjudag var líklega ekki af völdum Ísraelsmanna heldur hryðjuverkamanna. Sjúkrahúsið sjálft var ekki sprengt, heldur bílastæði fyrir utan sjúkrahúsið, og tölur um fjölda látinna voru að öllum líkindum blásnar upp af heilbrigðisráðuneyti Gasa, sem stýrt er af hryðjuverkasamtökunum Hamas.

Þetta kemur fram í greiningum bandarísku fréttastofanna Associated Press og CNN. Leyniþjónustur Bandaríkjanna og Frakklands hafa einnig komist að þeirri niðurstöðu að Ísrael beri að öllum líkindum ekki ábyrgð á sprengingunni.

Eldflaugahríð hryðjuverkamanna lýsti upp dimman himininn yfir Gasasvæðinu um klukkan 19 að staðartíma á þriðjudaginn. Myndbönd sem AP-fréttastofan rannsakaði sýna að ein eldflaug víkur út af braut sinni og brotnar í loftinu áður en hún hrapar niður til jarðar.

Nokkrum sekúndum síðar sýna myndböndin stóra sprengingu við sjúkrahúsið.

Samræmist ekki sprengjum Ísraelsmanna

AP greindi meira en tug myndbanda frá augnablikunum fyrir, á meðan og eftir sjúkrahússprenginguna, auk gervihnattamynda og annars myndefnis. Greining AP sýnir að eldflauginni, sem sést brotna í loftinu, var skotið frá Gasasvæðinu.

Ljósmyndir sem AP tók morguninn eftir sprenginguna á þriðjudag sýndu engar vísbendingar um stóran gíg við sjúkrahúsið, en slíkt myndi samræmast sprengju eins og þeim sem ísraelskar flugvélar hafa varpað í öðrum nýlegum árásum. Sjúkrahúsbyggingarnar í kringum útisvæðið í miðju sprengingarinnar standa enn og virðast ekki hafa orðið fyrir verulegum skemmdum.

Lítill gígur sem myndaður var á bílastæði sjúkrahússins virtist vera um metri í þvermál, sem bendir til tækis með mun minni sprengiefni en ísraelskar sprengjur bera.

Þótt umfangsmikið vopnabúr Ísraels feli í sér smærri eldflaugar sem hægt er að skjóta úr þyrlum og drónum, hafa engar sannanir verið um slíkar eldflaugaárásir á svæðinu í kringum sjúkrahúsið á þriðjudagskvöld.

Svo virðist sem bílastæðið við sjúkrahúsið hafi verið sprengt, en …
Svo virðist sem bílastæðið við sjúkrahúsið hafi verið sprengt, en ekki sjúkrahúsið sjálft. AFP/Shadi Al-Tabatibi

Tala látinna blásin upp

Bandaríska leyniþjónustan metur líklegt að á bilinu 100 til 300 manns hafi látið lífið í sprengingunni og að aðeins litlar skemmdir hafi orðið á sjúkrahúsbyggingunni, samkvæmt skýrslu leyniþjónustu Bandaríkjanna sem fréttastofa CNN hefur komist yfir. Líklegt sé að tala látinna sé nær 100 en 300.

Fyrstu fregnir, sem hafðar voru eftir yfirvöldum á Gasa, hermdu að nærri 500 hefðu látið lífið.

„Ísrael sprengdi líklega ekki sjúkrahúsið á Gaza: Við metum það sem svo að Ísrael hafi ekki borið ábyrgð á sprengingu sem drap hundruð óbreyttra borgara í gær [17. október] á Al Ahli-sjúkrahúsinu á Gasasvæðinu,“ segir í matinu, sem tekið er fram að byggt sé á tiltækum gögnum, þar á meðal um eldflaugavirkni á sama tíma, myndböndum og myndum af atvikinu.

Heilbrigðisyfirvöld á Gasa, sem eins og áður sagði lúta stjórn Hamas-samtakanna, hafa fullyrt að 471 hafi látist í sprengingunni.

Kenndu þau samstundis ísraelskum loftárásum um en Ísraelar sögðu strax það kvöld að sprengingin hefði verið af völdum misheppnaðs eldflaugaskots palestínskra vígamanna í samtökunum Íslamskt jíhad.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert