Forseti samkunduhúss stunginn til bana

Forseti samkunduhúss gyðinga í Detroit fannst stunginn til bana fyrir …
Forseti samkunduhúss gyðinga í Detroit fannst stunginn til bana fyrir utan heimili sitt í gærmorgun. AFP/Sarah Rice

Forseti samkunduhúss í Detroit í Bandaríkjunum fannst stunginn til bana fyrir utan heimili sitt í gærmorgun, að sögn lögreglu og samkunduhússins.

Samkunduhúsið, Isaac Agree Downtown Synagogue, sendi frá sér yfirlýsingu síðdegis í gær þar sem fram kom að fórnarlambið væri kona að nafni Samantha Woll.

Þetta kemur fram í frétt fréttastofu ABC.

Fórnarlambið var Samantha Woll.
Fórnarlambið var Samantha Woll. Ljósmynd/Isaac Agree Downtown Synagogue

Ekki hægt að draga ályktanir strax

„Á þessum tímapunkti höfum við ekki frekari upplýsingar, en munum deila nánari upplýsingum þegar þær liggja fyrir. Megi minning hennar vera blessun,“ sögðu forsvarsmenn samkunduhússins í Facebook-færslu.

Lögreglan hefur engar upplýsingar um hugsanlegar ástæður að baki morðinu og rannsóknin er í fullum gangi. Verið er að rannsaka allar mögulegar ástæður og ekkert hefur verið útilokað að svo stöddu, að sögn lögreglu sem ræddi við fréttastofu ABC.

Lögregla og stjórnvöld víðs vegar um Bandaríkin hafa varað við auknu hættustigi fyrir gyðinga vegna gyðingahaturs í ljósi yfirstandandi stríðs Ísraels og Hamas. James E. White, lögreglustjóri Detroit, hvatti almenning til að draga engar ályktanir fyrr en frekari staðreyndum hefði verið safnað.

„Skiljanlega skilur þessi glæpur mörgum spurningum eftir ósvarað. Þetta mál er í rannsókn og ég bið um að allir haldi þolinmæði á meðan rannsakendur skoða vandlega alla þætti fyrirliggjandi sönnunargagna,“ sagði hann í yfirlýsingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert