„Aldrei séð annan eins skort á sönnunargögnum“

Sífellt fleiri kenna nú hryðjuverkamönnum um sprenginguna.
Sífellt fleiri kenna nú hryðjuverkamönnum um sprenginguna. AFP/Shadi Al-Tabatibi

Stjórnvöld í Bretlandi, leyniþjónustan í Kanada og greining fréttastofu CNN segja að sprengingin á bílastæðinu hjá Al-Ahli-sjúkrahúsinu á Gasa í síðustu viku hafi ekki verið af völdum ísraelska hersins. Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, segir að rangfærslur um málið hafi aukið spennuna í landinu.

Eins og mbl.is hefur greint frá þá hafði leyniþjónusta Bandaríkjanna komist að þeirri niðurstöðu að sprengingin hafi líklegast verið af völdum slysaskots hryðjuverkamanna er þeir skutu eldflaugum í átt að Ísrael og ein þeirra brotnað upp í loftinu og fallið niður til jarðar. Franska leyniþjónustan og sjálfstæð greining fréttastofunnar Associated Press höfðu einnig komist að þeirri niðurstöðu.

„Rangfærslur um þetta atvik höfðu neikvæð áhrif á svæðinu, þar á meðal á mikilvæga diplómatíska viðleitni Bandaríkjanna og á spennuna hér heima,“ sagði Sunak við breska þingið í dag.

Hryðjuverkasamtökin Hamas sökuðu Ísrael um verknaðinn og fór sú ásökun eins og eldur um sinu um heim allan er fréttir af sprengingunni bárust 17. október.

Sprengingin var líklega gölluð eldflaug hryðjuverkamanna

Varnarmálaráðuneyti Kanada kynnti niðurstöðu sína um helgina þar sem segir að í kjölfar sjálfstæðrar rannsóknar leyniþjónustunnar þá geti hún með mikilli vissu sagt að Ísrael beri ekki ábyrgð á sprengingunni. Líklegasta útskýringin sé, eins og fyrr segir, slysaskot hryðjuverkamanna.

Í greiningu CNN kemur fram sama niðurstaða.

„Ég trúi því að þetta hafi gerst - eldflaug bilaði og hún féll ekki í heilu lagi. Líklegt er að hún hafi fallið í sundur í loftinu af einhverjum ástæðum og skollið á bílastæðið. Þar kviknaði í eldsneytisleifunum og þá kviknaði í bílum og öðru eldsneyti á sjúkrahúsinu, sem olli stóru sprengingunni sem við sáum,“ sagði Markus Schiller, evrópskur eldflaugasérfræðingur sem hefur unnið að greiningum fyrir NATO og Evrópusambandið, í samtali við CNN.

Hamas mögulega búin að hylma yfir sönnunargögn

Marc Garlasco, fyrrverandi sérfræðingur í leyniþjónustunni og rannsakandi stríðsglæpa hjá Sameinuðu þjóðunum, segir að merki séu um skort á sönnunargögnum á Al-Ahli-sjúkrahúsinu.

„Þegar ég kanna vettvang hugsanlegs stríðsglæps er það fyrsta sem ég geri að finna og bera kennsl á hluta vopnsins. Vopnið segir þér hver gerði það og hvernig. Ég hef aldrei séð annan eins skort á sönnunargögnum fyrir vopni á staðnum, aldrei. Það er alltaf einhver sprengja eftir á. Í 20 ár sem ég hef rannsakað stríðsglæpi er þetta í fyrsta skipti sem ég hef ekki séð neinar vopnaleifar. Og ég hef unnið í þremur stríðum á Gasasvæðinu,“ segir Garlasco við CNN.

Myndband sem CNN fékk daginn eftir sprenginguna sýnir fjölda fólks fara um svæðið. Mikil hætta er á því að búið sé að eiga við sönnunargögnin eða þau glatast innan um glundroðann og mannmergðina.

Cobb-Smith sem CNN ræddi við hefur áður rannsakað vettvangi á Gasasvæðinu og sagði hann stjórnvöld á Gasa, sem lúta stjórn hryðjuverkasamtakanna Hamas, reglulega reynt að hnekkja á sjálfstæðum rannsóknum af atvikum sem eiga sér stað innan Gasasvæðisins.

Ísrael var mótmælt var víðs vegar um heiminn í kjölfar …
Ísrael var mótmælt var víðs vegar um heiminn í kjölfar ásakana hryðjuverkasamtakanna Hamas um að Ísrael bæri ábyrgð á verknaðinum. AFP/Mohammed Huwais



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert