NATO-aðild Svía lögð fyrir tyrkneska þingið

Recep Tayyip Erdogan hefur áður sagst geta samþykkt aðild Svía …
Recep Tayyip Erdogan hefur áður sagst geta samþykkt aðild Svía að NATO ef Tyrkland fær að taka upp þráðinn í aðildarviðræðum að ESB. AFP/Ozan Kose

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti hefur lagt aðildarumsókn Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu (NATO) fyrir tyrkneska þingið, eftir 17 mánaða pattstöðu í málinu.

Tyrkland og Ungverjaland eru einu NATO-ríkin sem hafa enn ekki samþykkt aðild Svíþjóðar að bandalaginu, en Svíar sóttu loksins um aðild í fyrra í kjölfar innrásar Rússlands inn í Úkraínu, eftir að hafa lengi staðið gegn NATO-aðild.

Erdogan samþykkti á leiðtogafundi NATO í júlí að leggja aðild Svíþjóðar fyrir tyrkneska þingið, er stjórnarliðar í öðrum löndum lögðu æ aukin þrýsting á stjórnvöld í Ankara.

„Aðildarbókun Svíþjóðar að NATO var undirrituð þann 23. október af Recep Tayyip Erdogan forseta og send til Tyrkneska þingsins,“ segir í færslu forsetaembættisins á X, áður Twitter.

„Hvetjandi fréttir“

Ulf Krisersson, forsætisráðherra Svía, kallaði tilkynninguna „hvetjandi fréttir“.

„Eina sem vantar nú er að þingið fjalli um málið,“ sagði Kristersson, einnig á X. „Við erum spennt fyrir því að verða meðlimur að NATO.“

Finnland, nágrannaþjóð Svía í austri sem sótti um aðild á sama tíma og Svíþjóð, hlaut aðild í apríl. Sænsk stjórnvöld hafa þurft að sæta gagnrýni frá Erddogan, þar sem hann krefst þess að Svíar setji lög um Kóranbrennur. Stjórnvöld í Ankara halda því einnig fram að Svíþjóð skjóti skjólshúsi yfir kúrdíska skæruliða og hafa krafist framsals þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert