Sprengja sprakk við hús í Stokkhólmi

Sprengja sprakk í Enskededalen í Suður-Stokkhólmi í morgun og er …
Sprengja sprakk í Enskededalen í Suður-Stokkhólmi í morgun og er einn íbúa hússins sem hún sprakk við á svokölluðum „dauðalista“ í sænsku undirheimunum. AFP

Maður er í haldi lögreglunnar í Stokkhólmi eftir að sprengja sprakk við hús í Enskededalen í Suður-Stokkhólmi á sjötta tímanum í morgun að sænskum tíma. Ekki er vitað til þess að líkamstjón hafi orðið í sprengingunni.

„Sprengja af óþekktri gerð var sprengd og við fórum í kjölfarið inn í húsið sem var tómt,“ segir Daniel Wikdahl, fjölmiðlafulltrúi lögreglunnar í Stokkhólmi, í samtali við sænska ríkisútvarpið SVT. Sá sem handtekinn var nú síðdegis er talinn tengjast atburðinum að sögn Wikdahl og útilokar hann ekki að fleiri verði handteknir vegna málsins þrátt fyrir að vilja ekki ræða það frekar.

Einn íbúa á dauðalista

Lögreglan lítur á sprenginguna sem tilraun til manndráps, skemmdarverk með almannahættu í för með sér og brot gegn lögum um meðferð eldfimra efna og sprengiefna.

Lögreglan í Stokkhólmi hefur verið við vettvangsrannsókn í allan dag en eftir því sem SVT kemst næst er nafn eins íbúanna þar sem sprengjan sprakk á „dauðalistanum“ sem lögregla hefur greint frá að sé í umferð í undirheimunum en á þeim lista eru nöfn fólks sem ætlunin er að koma fyrir kattarnef af ýmsum sökum.

SVT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert