Veita Ísrael „drápsleyfi“

Sendiherra Sádi-Arabíu í Palestínu, Nayef bin Bandar al-Sudairi, til vinstri, …
Sendiherra Sádi-Arabíu í Palestínu, Nayef bin Bandar al-Sudairi, til vinstri, á fundi forsætisráðherra Palestínu, Mohammed Shtayyeh, til hægri. AFP/Majdi Mohammed

Forsætisráðherra Palestínu, Mohammed Shtayyeh, segir Vesturlönd veita Ísrael „drápsleyfi“ í átökunum fyrir botni Miðjarðarhafs. 

Ísrael hefur herjað á Gasa með sprengjuárásum eftir hryðjuverkaárás Hamas þann sjöunda október, sem varð rúmlega 1.400 manns að bana. Flestir óbreyttir borgarar. 

Heilbrigðisráðuneytið í Gasa, sem er undir stjórn Hamas sagði í dag að rúmlega fimm þúsund manns hefðu látið lífið í sprengjuárásum Ísraels að mestu óbreyttir borgarar. Fréttaveitan AFP segist þó ekki geta staðfest þessar tölur.

„Það sem við heyrum þegar landráðsmennirnir [Ísrael] segjast vera að undirbúa innrás eru glæpir, grimmdarverk og fólksflutningar,“ sagði Shtayyeh á ríkisráðsfundi Palestínu. 

„Við fordæmum yfirlýsingar sem veita Ísrael pólitískan skjöld og drápsleyfi sem hvetja til fjöldamorðs og tortímingar á Gaza,“ sagði hann enn fremur.

Sprengjuárásir herja á Gasa um þessar mundir og stefna óbreyttum …
Sprengjuárásir herja á Gasa um þessar mundir og stefna óbreyttum borgurum í hættu. AFP/Jack Guez

Joe Biden Bandaríkjaforseti Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, og Olaf Scholz Þýskalandskanslari sem og aðrir þjóðarleiðtogar hafa heimsótt Ísrael síðustu daga. Þar lögðu þeir áherslu á sjálfsvarnarrétt landsins, en á sama tíma hvöttu þeir ríkisstjórn Ísrael til þess að virða alþjóðleg mannúðarlög. 

Joe Biden og leiðtogar Bretlands, Kanada, Frakklands, Þýskalands og Ítalíu ítrekuðu ofangreind orð í sameiginlegri yfirlýsingu eftir fjarfund síðastliðinn sunnudag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert