Kvennaverkfallið vakti athygli um allan heim

Heimspressan fjallaði um kvennaverkfallið.
Heimspressan fjallaði um kvennaverkfallið. Samsett mynd

Kvennaverkfallið sem fór fram í dag vakti athygli hjá heimspressunni. Fjölmiðlar í Bandaríkjunum, Bretlandi, Jamaíku og Indlandi, svo fáein lönd séu nefnd, fjölluðu um þennan merkilega dag.

Eins og mbl.is fjallaði um í gær þá hafði þessi dagur þegar spurst út um heim allan í aðdraganda verkfallsins. Þá vakti það sérstaka athygli hjá fjölmiðlum erlendis að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hafi tekið þátt í verkfallinu. 

Það er nánast ómögulegt að áætla fjölda þeirra frétta sem birtust um verkfallið um heim allan en þær verða tæpast í tugum taldar, líklega í hundruðum.  

Karlkyns fréttamenn fjalla um kvennaverkfall

Í Jamaíku gerði fjölmiðillinn Jamaica Observer frétt þar sem farið var yfir verkfallið og í henni er meðal annars sagt:

„Íslendingar vöknuðu við það að karlkyns fréttamenn tilkynntu um lokanir um allt eylandið: skólum lokað, almenningssamgöngum seinkað, sjúkrahús undirmönnuð, hótelherbergi óþrifin,“ segir meðal annars í fréttinni.

Í Indlandi fjallaði fjölmiðillinn The Indian Express einnig um verkfallið og reynir fjölmiðillinn  að útskýra fyrir lesendum sínum af hverju konur á Íslandi eru að mótmæla þrátt fyrir að mesta jafnrétti í heiminum sé á Íslandi. Í byrjun fréttarinnar leggja þeir fram nokkrar spurningar um verkfallið og ástæður þess.

„Í 14 ár í röð hefur Ísland verið í efsta sæti á lista World Economic Forum um jafnrétti kynjanna. Af hverju eru konur þess vegna þá að mótmæla? Og hvers vegna tekur forsætisráðherrann þátt í verkfallinu, þegar ríkisstjórn hennar hefur vald til að laga vandamál?“

„Konur á eldfjallaeyjunni“

Fjölmiðillinn The Associated Press gerði einnig frétt sem byrjar svona:

„Skólum, verslunum, bönkum og frægum sundlaugum Íslands var lokað á þriðjudag þar sem konur á eldfjallaeyjunni - þar á meðal forsætisráðherra - fóru í verkfall til að binda enda á ójöfn laun og kynbundið ofbeldi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert