Rifu niður heilt hús fyrir mistök

Þarna var eitt sinn heimili.
Þarna var eitt sinn heimili. Skjáskot

Bandarísk kona er í áfalli eftir að húsið hennar, sem er skammt frá Atlanta, var jafnað við jörðu fyrir mistök. 

Konan, Susan Hodgson, segir í samtali við AP-fréttastofuna að hún hafi verið í fríi í síðasta mánuði þegar húsið var rifið. Þegar hún kom til baka blöstu aðeins við húsarústir. 

Er brjáluð og í áfalli

„Ég er brjáluð,“ segir Hodgson í viðtali um liðna helgi. „Ég hugsa í sífellu með mér: „Er þetta spaug eða eitthvað í þá veru?“ Ég er í áfalli,“ segir hún. 

Hún kveðst hafa fengið símtal frá nágranna sínum á meðan hún var á ferðalagi. Nágranninn spurði hana hvort hún hefði ráðið verktaka til að rífa húsið. Svarið var nei. „Það er nú samt einhver þarna sem var að jafna húsið við jörðu,“ segir Hodgson þegar hún rifjar upp samtalið við nágrannann. 

Verktakinn með dólg

Hún segir að verktakarnir höfðu brugðist ókvæða við þegar nágranninn ræddi við þá. 

„Þeir sögðu henni að halda sér saman og skipta sér ekki af,“ sagði Hodgson. 

Fóru húsavillt

Þá bað hún ættingja um að fara á vettvang og biðja mennina um að framvísa leyfi. Þá kom í ljós, þegar verkstjórinn fór yfir málið, að þeir hefðu farið húsavillt. 

Hodgson tekur fram að enginn hafi búið í húsinu undanfarin fimmtán ár. Lóðinni hafi hins vegar ávallt verið sinnt, grasið slegið og skattar og gjöld greidd af eigninni. 

Hún hefur kært málið til lögreglu og rætt við lögmenn um næstu skref. 

„Hvernig getur fólk bara farið og tætt í sig annarra manna eignir og svo bara ekið á brott?“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka