Mun þurfa að svara fyrir öryggisbrestinn

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels.
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels. AFP

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, viðurkennir að hann muni þurfa að svara fyrir þann öryggisbrest sem gerði Hamas-hryðjuverkasamtökunum auðveldara fyrir að ráðast á og drepa fjölda ísraelska borgara þann 7. október. „En það mun allt gerast seinna,“ segir ráðherrann.

„Við munum skoða það nákvæmlega, [og] við munum komast til botns í þessu,“ sagði Netanjahú í sjónvarpsávarpi í dag en hann hefur sætt mikla gagnrýni í fjölmiðlum og frá stjórnarandstöðunni eftir að Hamas-liðar brutust í gegn um varnir Ísrael og drápu fjölda ísraelskra borgara.

Ísraelsk stjórnvöld segja að fleiri en 1.400 manns hafi verið drepnir í árásinni.

„Orsökin mun vera könnuð og allir munu þurfa að veita svör, þar á meðal ég. En allt það mun allt gerast seinna,“ sagði ráðherrann. „Sem forsætisráðherra ber ég ábyrgð á því að tryggja framtíð landsins,“ bætti hann við.

Búa sig undir landinnrás

Ísraelsmenn búa sig nú undir landinnrás á Gasaströndina. Yfirvöld í Gasa, sem eru undir stjórn Hamas, segja að fleiri en 6.500 manns hafi þegar verið drepnir í sprengjuárásum Ísraels, sem hófust stuttu eftir árás Hamas-liða þann 7. október.

Talið er að tugir þúsunda ísraelskra hermanna bíði nú fyrirmæla um landinnrás á Gasaströndina.

„Ég get ekki sagt hvenær, hvernig eða hversu mörg, né heldur hvaða atriði við tökum inn í reikninginn [er varðar landinnrásina], flest hverra eru þó kunnug almenningi,“ sagði Netanjahú.

Ísrael hefur u.þ.b. 165 þúsund hermenn en hefur einnig skipað 360 þúsund varaliðsmenn til starfa, suma við Gasa en aðra við landamæri Líbanons, þar sem Hezbollah-samtökin í Líbanon hafa verið að skjóta fjölda loftskeyta á Ísrael síðustu daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert