„Við höfum enga aðra kosti“

Riyad al-Maliki, utanríkisráðherra Palestínu ávarpar blaðamenn.
Riyad al-Maliki, utanríkisráðherra Palestínu ávarpar blaðamenn. AFP/Jeffrey Groeneweg

Utanríkisráðherra Palestínu, Riyad al-Maliki, segir innrás Ísraels á Gasasvæðið „hefndarstríð“ og kallar eftir vopnahléi.

Hann lét þessi orð falla í sendiferð yfirvalda frá Palestínu til Haag í Hollandi.

„Þetta stríð hefur sér engan tilgang, nema gjöreyðingu á Gasa,“ sagði Maliki og bætti við að vopnahlé væri nú forgangsmál og að koma þyrfti hjálpargögnum til Gasa. 

„Fyrsta mál á dagskrá er að binda enda á yfirganginn í einhliða stríði,“ sagði hann og bætti við að „vopnahlé er nauðsynlegt... til þess að veita mannúðaraðstoð“.

„Pása í þágu mannúðar“

Maliki lagði þó áherslu á að svokallað „hlé í þágu mannúðar“ (e. humanitarian pause) myndi ekki leysa neyðarástandið í Gasa. Evrópusambandið ætlar í dag að kalla eftir slíku hléi á átökunum og að opnuð verði leið inn á Gasasvæðið til að koma hjálpargögnum til borgara.

Maliki sagði að hann hefði ekki mikla trú á því að Evrópusambandið myndi kalla eftir vopnahléi. „Ég hef þó trú á því að í viðræðunum munu þau gera sér grein fyrir muninum á hléi í mannúðarskyni og vopnahléi,“ sagði hann enn fremur. 

Maliki sagði einnig að eina lausnin við vandanum væri að taka aftur upp hina svokölluðu tveggja ríkja lausn. 

„Við höfum enga aðra kosti,“ sagði hann. 

Í gær fór Maliki á fund embættismanna hjá Alþjóðlega sakamáladómstólnum, þar sem hann kallaði eftir tafarlausum aðgerðum dómstólsins, en Maliki sakaði Ísraelsmenn um að hafa framið stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni.  

Yfirvöld í Palestínu hafa einnig lagt fram kröfu til Alþjóðadómstólsins í Haag, en Sameinuðu þjóðirnar hafa beðið dómstólinn um lagalegt mat á yfirtöku Ísraels í Palestínu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert