Býr glæpamaður heima hjá þér?

Á þessu myndskeiði sem sænska ríkisútvarpið SVT birti á vef …
Á þessu myndskeiði sem sænska ríkisútvarpið SVT birti á vef sínum að morgni 26. september má sjá hvernig framhliðin rifnaði af hluta húss sem öflug sprengja sprakk við. Slíkar árásir eru hvort tveggja gerðar heima hjá glæpamönnum sem aðrir troða illsakir við eða hreinlega heima hjá vinum þeirra eða ættingjum. Skjáskot/Myndskeið SVT

Íbúar sænsku höfuðborgarinnar Stokkhólms flykkjast nú hver um annan þveran í nýja þjónustu vefsímaskrárinnar Hitta.se sem einhvern tímann hefði þótt framúrstefnuleg en nú á tímum vitna vinsældir hennar fyrst og fremst um nauðsynina. Þjónusta þessi gengur út á að gera fólki aðvart ef óviðkomandi flytur lögheimili sitt heim til þess.

Félagar í sænskum glæpaklíkum, sem borist hafa á banaspjót síðustu mánuði með sprengitilræðum og skotárásum á heimilum sínum eða vina og vandamanna, liggja nú á því lúalagi að skrá heimilisföng sín ranglega annars staðar en þar sem þeir halda til með það fyrir augum að forðast fyrirvaralausar skot- og sprengjuárásir.

Bannað en auðvelt

Lögmætur íbúi eða íbúar nýja heimilisfangsins fá hins vegar ekki sjálfkrafa vitneskju um nýja „íbúann“ eins og kerfið er í Svíþjóð. Til þess að fá hana þurfa þeir að skrá sig inn á sínar síður á vef sænska skattsins. Þykir þetta fyrirkomulag mjög til vansa í ljósi þeirrar skálmaldar sem ríkt hefur í Svíþjóð undanfarið.

Sænsk lög banna að fólk skrái lögheimili sitt heima hjá öðrum að þeim fornspurðum, sektir og allt að tveggja ára fangelsi viðlagt. Skattyfirvöld hafa nú gert tillögu um fyrirkomulag sem geri að réttmætum íbúum sé tilkynnt um nýjar skráningar á þeirra heimilisfang.

Óöld hefur ríkt í Stokkhólmi og víðar í Svíþjóð undanfarna …
Óöld hefur ríkt í Stokkhólmi og víðar í Svíþjóð undanfarna mánuði vegna hálfgerðrar styrjaldar í undirheimunum. AFP

Það fyrirkomulag er þó aðeins tillaga enn sem komið er og hefur þjónusta Hitta.se, sem hleypt var af stokkunum á miðvikudaginn, því notið mikilla vinsælda og skráðu 25.000 manns sig þar sem notendur fyrsta sólarhringinn og skyldi engan undra hvar 10.000 þeirra búa – í Stokkhólmi þar sem ófriðarbálið hefur brunnið hve heitast.

„Við hófum þessa þjónustu vegna þarfar fyrir hana meðal okkar notenda. Hér er um mikilvægt tímaspursmál að ræða. Líf saklauss fólks er undir,“ segir Niklas Grawé, framkvæmdastjóri Hitta.se, í samtali við norska ríkisútvarpið SVT.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert