Erlendir ríkisborgarar strandaglópar á Gasa

Reykmökkur frá norðurhluta Gasasvæðisins í kjölfar sprengjuárása Ísraela.
Reykmökkur frá norðurhluta Gasasvæðisins í kjölfar sprengjuárása Ísraela. AFP/Menahem Kahana

Hundruð erlendra ríkisborgara eru enn strandaglópar á Gasa þar sem Ísraelar herða loftárásir.

CNN greinir frá.

Eftir langar samningaviðræður um að flytja erlenda ríkisborgara frá Gasasvæðinu eru þeir enn strandaglópar. Heimildarmenn CNN, sem taka þátt í samningaviðræðum, segja að tilraunir til að opna landamærastöð í suðurhluta Gasa sé bæði stöðvuð af hryðjuverkasamtökum Hamas, Ísraelum og áhyggjum Egypta um að ekki sé öruggt á svæðinu.

Ná ekki sambandi við ástvini á svæðinu

Nú þegar Ísraelsher hefur aukið landhernað á Gasasvæðinu hefur ástandið á svæðinu versnað. Hjálparstarfsmenn og aðrir einstaklingar á svæðinu segjast óttaslegnir og að þeir séu hvergi öruggir. Bandarískir embættismenn segjast vera að vinna að því í samvinnu við Ísraela að koma upp öryggissvæðum fyrir erlenda ríkisborgara en svæðin eru ekki að fullu tilbúin.

Í samtali við CNN sögðust fjölskyldur erlendra ríkisborgara, sem eru á Gasa, ekki hafa náð sambandi við ástvini sína eftir að fjarskiptasamband rofnaði í kjölfar sprengjuárása. Þá reyndi CNN að ná sambandi við tengiliði sína á svæðinu án árangurs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert