Forsætisráðherra Ísrael vísar ásökunum um stríðsglæpi á bug. Landhernaður er hafinn á norðanverðri Gasaströndinni en íbúar þar hafa verið varaðir við því að svæðið muni breytast í „vígvöll“.
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael, staðfesti í ræðu í dag að landhernaður væri hafinn á Gasaströndinni. „[Hermennirnir] eru nú á Gasaströndinni, þeim er dreift víðsvegar um svæðið,“ sagði hann. Þá kallaði hann Gasa einnig „illskunnar virki“.
Frá þessu greinir Breska ríkisútvarpið.
Netanjahú sagði að yfirstandandi landhernaður væri næsta stig stríðsins og hafi „mjög skýr markmið“, sem sé m.a. að „leysa upp“ Hamas.
Fyrr í dag hafði Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti ásakað Ísraelsher um stríðsglæpi á Gasaströndinni. Án þess að nefna nein nöfn sagði Netanjahú:
„Ekki ásaka okkur um stríðsglæpi. Ef þið haldið að þið getið ásakað okkar hermenn um stríðsglæpi er það hræsni. Við státum af siðlegasta her í heimi.“
Forsætisráðherrann sagði að Ísraelsher gætti varúðar til þess að vernda borgara en hann ásakaði jafnframt Hamas-hryðjuverkasamtökin um að fremja glæpi gegn mannkyninu með því að „nota sitt eigið fólk sem hlíf“.
Breski ríkismiðillinn greinir einnig frá því að Daniel Hagari, talsmaður ísraelska hersins, hafi komið „brýnni beiðni“ til íbúa á norðanverðri Gasaströnd um að halda suður. Viðvörunin var aftur á móti birt á samfélagsmiðlinum X, sem flestir á Gasa hafa ekki aðgang af þar sem lítið sem ekkert netsamband er á svæðinu.
Þó hefur Ísraelsher einnig dreift miðum fyrir ofan Gasa með svipaðar aðvaranir. Skilaboðin, sem eru á arabísku, vara við því að norðanvert svæðið muni breytast í „vígvöll“ og að fólk ætti að halda suður.
Heilbrigðisráðuneyti Gasa, sem er undir stjórn Hamas, segir að um 7.600 manns hafi verið drepnir Gasaströndinni frá því að árásir Ísraelshers hófust þann 7. október, í kjölfar árásar Hamas-liða á Ísrael. Þá séu börn 40% látinna. Ísrael segir að um 1.400 Ísraelsmenn hafi látið lífið í árás Hamas – langflestir hverra óbreytir borgarar.