Biðjast afsökunar í máli Madeleine McCann

Kate og Gerry McCann ræða við fjölmiðla árið 2014.
Kate og Gerry McCann ræða við fjölmiðla árið 2014. AFP/Patricia De Melo Moreira

Breskir foreldrar Madeleine McCann, sem hvarf sporlaust fyrir um 16 árum á Algarve í Portúgal þá þriggja ára gömul, hafa fengið afsökunarbeiðni frá lögreglu í Portúgal.

Sendinefnd háttsettra yfirmanna lögreglu í Portúgal ferðaðist til Lundúna fyrr á árinu og baðst afsökunar á því hvernig rannsókn hvarfs dóttur þeirra var háttað og á framkomu lögreglu í Portúgal við fjölskyldu McCann. BBC greinir frá.

Með réttarstöðu grunaðra

Haustið 2007, um fjórum mánuðum eftir hvarf Madeleine, fengu foreldrar hennar, Kate og Gerry, réttarstöðu grunaðra. Bæði voru þau yfirheyrð af rannsóknarlögreglu sem taldi þau hafa sviðsett mannrán, drepið dóttur sína og falið líkið. Móðir Madeleine sagði að henni hafi verið boðið að játa á sig morðið á dóttur sinni gegn því að fá mildari dóm. Stöðu hjónanna sem grunaðra var aflétt árið 2008 en þau lágu samt sem áður undir grun til margra ára.

Portúgalska lögreglan segir nú að rannsóknin hafi í upphafi ekki verið framkvæmd með réttum hætti og að staða foreldra Madeleine sem útlendinga í óþekktu umhverfi hafi ekki verið virt.

Brückner fyrir dóm í febrúar á næsta ári

Lögregla í Portúgal hefur veitt þýskum yfirvöldum stuðning, sem telja að hinn 46 ára gamli Þjóðverji Christian Brückner hafi myrt barnið.

Hans Christian Wolters, saksóknari í Þýskalandi, fagnaði afsökunarbeiðni lögreglunnar í Portúgal.

„Þetta er jákvætt og sýnir að í Portúgal er einhver þróun í McCann-málinu.“

Sagði hann að lið sitt vonaðist til að ljúka fimm ára rannsókn sinni á Brückner á næsta ári. Brückner bjó nálægt Praia da Luz dvalarstaðnum þegar McCann-fjölskyldan var í fríi þar og varði tíma á svæðinu á milli áranna 2000 og 2017. Hann var formlega grunaður af portúgölskum saksóknara árið 2022.

Fyrr á árinu var þriggja daga leit í uppistöðulóni í Portúgal á vegum þýskra yfirvalda þar sem leitað var að sönnunargögnum til að tengja hvarf barnsins við Brückner.

„Við teljum að hann hafi átt þátt í hvarfi Madeleine McCann og við teljum að hann hafi myrt hana,“ sagði Wolters.

Brückner afplánar nú sjö ára fangelsi í Þýskalandi fyrir eiturlyfjasmygl og nauðgun á sama svæði og Madeleine hvarf.

Hann hefur þegar verið ákærður fyrir þrjár nauðganir til viðbótar, kynferðisbrot gegn barni og kynferðisofbeldi. Brotin fimm eru talin hafa verið framin á Algarve í Portúgal. Wolters staðfesti þá að réttað yrði í málunum í febrúar árið 2024.

Foreldrarnir ekki tjáð sig um afsökunarbeiðnina

Lögmaður Brückners, Friedrich Fulscher, sagði að skjólstæðingur sinn nýtti þagnarrétt sinn.

„Við þekkjum innihald skjalanna og teljum ákærurnar allar byggðar á óstöðugum grunni,“ sagði Fulscher.

Kate og Gerry McCann hafa ekki tjáð sig um afsökunarbeiðni portúgölsku lögreglunnar. Þau sögðu Madeleine enn vera saknað mjög og að þau biðu nýrra upplýsinga í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert