Alþjóðaglæpadómstóllinn (ICC) rannsakar nú hvort stríðsglæpir hafi verið framdir í Ísrael, á Gasasvæðinu og á Vesturbakkanum.
Karim Khan, saksóknari við dómstólinn, sagði þetta eftir heimsókn sína að landamærum Egyptalands að Gasasvæðinu um helgina.
Segir hann embætti sitt ætla að standa vörð um réttindi almennra borgara á þeim svæðum sem lögsaga dómsins nær til.
Khan varaði við því að tilraunir til þess að koma í veg fyrir að hjálpargögn berist inn á Gasasvæðið gætu brotið í bága við lög.
„Ég sá fjölda flutningabíla með nauðsynlegum birgðum fasta á landamærunum, þar sem enginn þarf á þeim að halda. Fasta í Egyptalandi, fasta við Rafha-landamærin,“ sagði Khan.
Hann ítrekaði að brýnt væri að þessir flutningabílar kæmust yfir landamærin til að færa hjálpargögn til almennra borgara í neyð.
Takmarkaður fjöldi flutningabíla hefur farið yfir landamærin síðan 21. október, eða aðeins 117 bílar. Áður en átökin hófust fóru um 500 bílar að meðaltali á hverjum degi inn á svæðið með hjálpargögn.
Ísraelsher hóf árásir á Gasasvæðið í kjölfar árásar hryðjuverkasamtakanna Hamas þann 7. október. Fleiri en 1.400 létust í árás Hamas.
Í árásum Ísraelshers hafa yfir átta þúsund manns látist, þar af er helmingur börn.