Ísraelsher jafnaði heimili næstæðsta leiðtoga Hamas, Saleh al-Aruri, á Vesturbakkanum við jörðu í dag með sprengiefni.
Að sögn Ísraelshers fóru hersveitir í þorpið Arura, sem er skammt frá borginni Ramallah. Þar skutu þeir að fólki sem kastaði grjóti í átt að hermönnunum er þeir voru að jafna húsið við jörðu.
Ísraelsk yfirvöld segja að Aruri hafi skipulagt fjölmargar árásir. Hann var kjörinn varaformaður Hamas, á eftir leiðtoganum Ismail Haniyeh, árið 2017, áður en hann var svo formlega gerður að næstæðsta leiðtoga hryðjuverkasamtakanna.
Fréttamaður AFP sá rústir hússins í Arura og ræddi við frænda Aruri sem sagði að tilgangur aðgerða hersins væri að hræða fólk.
„Einnig til að fá fólk til að halda sig frá andspyrnunni [gegn Ísrael], en þetta fólk er staðfast,“ sagði Qutaiba Khasib.
Þann 21. október handtók Ísraelsher um 20 manns, þar á meðal bróður Aruri og níu yngri frændur hans að sögn bæjarstjórans Ali al-Khasib.
Hann segir að herinn hafi einni yfirheyrt tugi á vettvangi og lagt hald á eigur úr húsinu.
Eftir að hafa verið tæpa tvo áratugi í ísraelskum fangelsum, þá var Aruri sleppt lausum árið 2010 með því skilyrði að hann færi í útlegð.