Segja tugi látna eftir loftárás á flóttamannabúðir

Tugir eru látnir í kjölfar loftárásar Ísraelshers á flóttamannabúðirnar Jabaliya …
Tugir eru látnir í kjölfar loftárásar Ísraelshers á flóttamannabúðirnar Jabaliya á Gasasvæðinu í dag. AFP

Hryðjuverkasamtökin Hamas segja 50 látna af völdum loftárásar Ísraelshers á flóttamannabúðirnar Jabaliya í norðurhluta Gasastrandarinnar í dag. 

Ísraelski herinn hefur gert innrás á svæðið, en áætlað er að um átta hundruð þúsund manns hafi flúið til suðurs í kjölfar hennar.

Felldu lykilleiðtoga Hamas-samtakanna

Ísraelski herinn hefur staðfest með árásinni hafi herinn náð markmiði sínu um að fella Ibrahim Biari, einn lykilleiðtoga Hamas-samtakanna. 

„Útrýming hans var framkvæmd sem hluti af víðtækri árás á hryðjuverkamenn og hryðjuverkamannvirki sem tilheyra Jabaliya-herfylkingunni, sem náð hafði yfirráðum yfir borgaralegum byggingum í Gasa,“ sagði herinn í samtali við fjölmiðla í kvöld.

Tugir grafnir undir rústunum

Heilbrigðisyfirvöld Gasa, sem eru undir stjórn Hamas, hafa greint frá því að að minnsta kosti 50 hafi látið lífið í árásinni, en auk þess særðust 150.

Tugir eru enn gafnir undir rústum loftárásarinnar. Björgunarliðar eru að störfum á svæðinu sem orðið hefur verið fyrir gífurlegri eyðileggingu.

Barnahjálparsamtökin UNICEF hafa lýst yfir verulegum áhyggjum yfir átökunum og mannfallinu sem hefur átt sér stað á Gasasvæðingu á undanförnum vikum. 

„Gasa er orðið grafreitur fyrir þúsundir barna. Þetta er lifandi helvíti fyrir alla aðra,“ sagði talsmaður samtakanna í samtali við fjölmiðla, en þau hafa ítrekað hvatt til vopnahlés. 

Segir enga möguleika á vopnahléi

Hugmyndir um vopnahlé hafa þó ekki fengið hljómgrunn, en forsætisráðherra Ísraels, Benjamín Netanjahú, hefur vísað kröfum þess eðlis alfarið á bug. 

„Kröfur um vopnahlé eru ákall til Ísraels um að gefast upp fyrir Hamas, að gefast upp fyrir hryðjuverkum, að gefast upp fyrir villimennsku,“ er haft eftir forsetanum í umfjöllun AFP. „Þetta mun ekki gerast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert