Donald Trump: „Láttu börnin mín í friði“

Donald Trump er ekki sáttur með það að synir hans …
Donald Trump er ekki sáttur með það að synir hans séu að fara bera vitni í réttarhöldunum. AFP/Angela Weiss

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, lét Arthur Engoron, dómara í máli sem höfðað var gegn Trump og sonum hans, heyra það fyrr í dag í aðdraganda vitnisburðar sem Donald Trump Jr, einnig þekktur sem Don Jr, þarf að fara með í réttarhöldum.

Donald Trump er ósáttur við að synir hans þurfi að bera vitni í málinu en Letitia James, sak­sókn­ari New York, sem höfðaði málið, sakar Trump og syn­i hans um að hafa á svik­sam­an hátt blásið út virði eigna fyrrverandi for­set­ans sem nem­ur millj­örðum Banda­ríkja­dala.

Heldur hún því fram að þeir hafi gert það til að reyna að fá fram betri kjör á lán­um og trygg­ing­um.

„Engoron er klikkaður, algjörlega óheflaður og hættulegur,“ sagði forsetinn í færslu á samfélagsmiðlinum Truth Social. „Láttu börnin mín í friði, Engoron. Þú ert skömm fyrir lögfræðistéttina.“

Donald Trump Jr, elsti sonur Donald Trumps, á að bera …
Donald Trump Jr, elsti sonur Donald Trumps, á að bera vitni í réttarhöldunum í dag. AFP/Win McNamee

Segir alla hafa fengið greitt að fullu

Ef allt gengur samkvæmt áætlun mun Don Jr bera vitni í dag og síðan Eric Trump, annar sonur Donald Trumps, á morgun. Báðir eru titlaðir sem aðstoðarforstjórar fjölskyldufyrirtækisins. Don Jr og Eric Trump tóku við stjórn fyrirtækisins þegar faðir þeirra var kjörinn forseti undir árslok 2016.

Fyrirtækið heitir The Trump Organization og stýrir víðfeðmu neti fyrirtækja sem eru í fasteignabransanum, hótelstarfsemi og með golfvelli um allan heim.

​„Bankarnir og tryggingafélögin fengu að fullu greitt, engin vanskil, þau græddu öll peninga og það er ekkert fórnarlamb (nema ég!),“ sagði Trump á Truth Social fyrr í dag. „Ársreikningurinn minn er FRÁBÆR! Það var ekkert svik.“

Eric Trump, með rautt bindi til hægri, hefur mætt í …
Eric Trump, með rautt bindi til hægri, hefur mætt í réttarhöldin til að fylgjast með gang mála. AFP/Jeenah Moon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka