Sameinuðu Þjóðirnar (SÞ) fordæma árás Ísraelshers á flóttamannabúðirnar Jabalia í norðurhluta Gasastrandarinnar í gær, þar sem talið er að tæplega 50 manns hafi fallið. Hryðjuverkasamtökin Hamas segja að Ísrael hafi aftur ráðist á flóttamannabúðir í dag.
Antonio Guterres, aðalritara SÞ, „blöskrar stigmagnandi ofbeldið á Gasa,“ að sögn Stephane Dujarric, talskonu hans. Á það m.a. við um loftárás Ísraelshers á þéttbýlu Jabila-flóttamannabúðirnar þar sem konur og börn voru meðal fórnarlamba.
Að sögn ísraelskra stjórnvalda voru 47 drepnir í árásinni, þar á meðal Ibrahim Biari, einn lykilleiðtogi Hamas-hryðjuverkasamtakanna, sem tók þátt í að skipuleggja árásina á Ísrael þann 7. október. Talið er að um 1.400 manns hafi verið drepnir í þeirri árás.
„Þetta má ekki halda áfram,“ segir Martin Griffiths, yfirmaður mannúðarmála hjá SÞ, í yfirlýsingu sem hann birti í dag – tveimur dögum eftir heimsókn sína á svæðið.
Segir Griffith að svo virðist sem heimurinn sé ófær, eða óviljugur, um að bregðast við ástandinu.