Stríðið eykur hættu á hatursárásum

Christopher Wray, yfirmaður alríkislögreglunnar á fundi þar sem farið var …
Christopher Wray, yfirmaður alríkislögreglunnar á fundi þar sem farið var yfir helstu ógnir sem Bandaríkin stæðu frammi fyrir í dag. AFP/Win McNamee

Stríðið milli Ísraels og Hamas-hryðjuverkasamtakanna hefur aukið hættu á árásum í Bandaríkjunum og vakið sérstakar áhyggjur meðal gyðinga og múslima, sagði Christopher Wray, yfirmaður alríkislögreglunnar (FBI), í gær.

„Við lifum á hættulegum tímum,“ sagði hann. „Núna er ekki tíminn til að gefa sig hræðslunni á vald heldur að vera á varðbergi.”

Wray sagði að FBI fylgdist glöggt með því að Hamas eða önnur erlend hryðjuverkasamtök gætu nýtt sér átökin til að gera árásir í Bandaríkjunum.

„Okkar helsta áhyggjuefni er að ofbeldisfullir öfgamenn, einstaklingar eða litlir hópar, muni sækja innblástur í atburði í Mið-Austurlöndum og gera árásir á Bandaríkjamenn,“ sagði hann.

Innblástur fyrir ofbeldis- og öfgamenn

„Þar á meðal eru ekki bara ofbeldisfullir öfgamenn sem fá innblástur frá erlendum hryðjuverkasamtökum heldur einnig innlendir öfgamenn sem beina spjótum sínum að gyðingum eða múslimum.“

Wray vakti athygli á handtöku í Houston í síðustu viku. Var maður handtekinn fyrir að hafa rannsakað hvernig mætti smíða sprengju og fyrir að birta færslu á netinu um að drepa gyðinga. Þá birti hann einnig færslur um frétt af því þegar karlmaður hefði myrt sex ára múslímskan dreng í Illinois, en málið er rannsakað sem hatursglæpur.

„Stríðið í Miðausturlöndum hefur fært ógnina um árás á Bandaríkjamenn á allt annað stig,“ sagði Wray.

Al-Qaeda, IS og Hezbollah hafa öll kallað eftir árásum á bandaríska hagsmuni, bætti Wray við. hryðjuverkasamtökum.

Hann sagði að ógnir við gyðinga í Bandaríkjunum séu nú í sögulegu hámarki.

„Raunveruleikinn er sá að öll hryðjuverkasamtök, hver sem þau eru, beina spjótum sínum að gyðingum,“ sagði Wray og bætti við að gyðingar væru aðeins 2,4 prósent Bandaríkjamanna en þeir verða fyrir 60 prósent hatursglæpa sem tengjast trúarbrögðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert