Norski laxeldisrisinn Lerøy Seafood Group kaus að þegja þunnu hljóði um fjöldadauða lax í eldiskvíum fyrirtækisins allt frá Kristiansund í Mæri og Raumsdal norður til Hitra í Þrændalögum í haust.
Með réttu hefði fyrirtækið átt að tilkynna norska matvælaeftirlitinu, Mattilsynet, um dauðann en eftirlitið komst fyrst á snoðir um málið þegar skoðunarfólk þess mætti í óboðaða heimsókn til Reitholmen 21. september þar sem Lerøy ræktar meðal annars lax sinn.
Í rannsókn sinni í kjölfar þeirrar uppgötvunar komst norska ríkisútvarpið NRK enn fremur að því að eldisfyrirtækið pantaði greiningu á laxahræjum 4. september og voru þar á ferð svokallaðir „svimer“-laxar en þeir glíma jafnan við fimm ólíka sjúkdóma, eiga í öndunarerfiðleikum og leita gjarnan upp að yfirborði vatns til að ná andanum.
Regluboðin tilkynningarskylda um fjöldadauða lax eða óvenjulegan dauða dregur úr hættunni á því að sjúkdómar dauðu laxanna smitist yfir í annan lax. Nú er orðið ljóst, eftir að sýnin sem Lerøy pantaði í september komu úr greiningu, að laxarnir í kvíum fyrirtækisins báru í sér fjölda sjúkdóma.
Hefur matvælaeftirlitið nú fundið hátt í 150.000 dauða laxa á eldisstöðvum fyrirtækisins og játar Bjarne Reinert, forstöðumaður sjóeldisdeildar Lerøy, að vissulega sé um óvenjulegt fyrirbæri að ræða sem hann skýrir fyrir NRK með sýkingu í tálknum laxanna sem geri að þeir kafni þúsundum saman.
Er Reinert ekki sammála því að fyrirtækinu hafi borið skylda til að tilkynna eftirlitinu um laxadauðann, það hafi einfaldlega sínar eigin verklagsreglur um slíkar tilkynningar.
Enn fremur þiggur NRK álit Trygve Poppe, prófessors emeritus í heilsufari fiska við Umhverfis- og líffræðistofnun Noregs, NMBU, sem kveðst aldrei hafa séð annað eins. Segir hann eldisfyrirtæki þurfa að bregðast skjótt við þegar fiskur drepist í hrönnum. „Liggi fiskur lengi dauður smitar hann út frá sér í það vatn sem um er að ræða. Fjarlægja ber dauðan fisk svo fljótt sem verða má og farga honum,“ segir prófessorinn enn fremur.
Hvað sem verklagsreglum Bjarne Reinert forstöðumanns og samstarfsfólks hans líður hangir Steinar Westerberg, umdæmisstjóri í matvælaeftirlitinu, á því eins og hundur á roði að fjöldadauða fisks, eins og þann sem hér er fjallað um, beri að tilkynna eftirlitinu án tafar og skilgreinir þann tímapunkt aðspurður þannig að tilkynna beri um leið og starfsfólk eldisfyrirtækis uppgötvar dauðann.
Einnar viku eða lengri bið sé klárlega brot gegn regluverkinu segir hann NRK en því mótmælir Reinert og bendir á að engir afmarkaðir tímafrestir séu gefnir fyrir slíkar tilkynningar, aðeins huglæg viðmið.
Til marks um að málinu sé hvergi nærri lokið má nefna umfjöllun NRK frá í haust um að sjálfdauður lax væri á leið úr kvíum Lerøy í Reitholmen á borð neytenda. Greindi áhöfn eins skipa fyrirtækisins matvælaeftirlitinu þá frá því að henni hefði verið gert að sækja dauðan lax í kvíar fyrirtækisins og flytja hann í sláturhúsið þar sem gera skyldi að hræjunum fyrir manneldi á norskum markaði.
Þverneitar Reinert því, er NRK sækir að honum, að dauður fiskur hafi verið á leið í búðir til manneldis, slíkt hafi aldrei verið og verði aldrei gert hjá Lerøy.
„Voru þetta þá ósannindi frá þeim sem greindu frá því?“ spyr fréttamaður NRK.
„Við höfum aldrei nýtt og munum aldrei nýta sjálfdauðan fisk til manneldis,“ svarar Reinert, fastur fyrir. Segir hann að 21. september hafi matvælaeftirlitið komið í óboðaða heimsókn og þá fundið sjálfdauðan lax í sláturhúsi fyrirtækisins á Reitholmen. Sá fiskur hafi verið í förgun, ekki annað, og til staðið að umbreyta hræjunum í lífrænt eldsneyti.