Stjórnvöld í Bandaríkjunum tilkynntu í dag um 59 milljarða hernaðaraðstoð til Úkraínu. Í pakkanum verða loftvarnakerfi og vopn fyrir stórskotalið sem gagnast eiga í vörn landsins gegn innrás Rússa.
Af þessari upphæð verða rúmir 17 milljarðar af aðstoð í sendingum úr vopnabúrum herafla Bandaríkjanna, þar á meðal eru minni vopn.
Tæpir 42 milljarðar verða í formi leysimiðaðra skotfæri sem ætlað er að skjóta niður flygildi. Þau vopn eru ekki til reiðu enn heldur þurfa hergagnaframleiðendur að framleiða þau.
Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna sagði í yfirlýsingu í dag að nú væri búið að ráðstafa öllum þeim fjármunum sem Bandaríkjaþing hefði samþykkt síðla í september til stuðnings Úkraínumönnum.
Varnarmálaráðuneytið segir aðstoð við Úkraínumenn vera „snjalla fjárfestingu í þjóðaröryggi“ Bandaríkjanna, og bætir við að aðstoðin „hjálpi til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu átaka á svæðinu og fælir gegn frekari árás annars staðar frá. Hún styrkir jafnframt hergagnaiðnaðinn í Bandaríkjunum með því að skapa mjög sérhæfð störf fyrir bandarískan almenning.“
Bandaríkin hafa til þessa verið mikilvægasti veitandi hergagnaaðstoðar til Úkraínu eftir að Rússar réðust inn í landið í febrúar 2022.