Hamas loka á fólksflutninga til Egyptalands

Sjúkrabílar hafa flutt slasaða borgara frá Gasasvæðinu yfir til Egyptalands …
Sjúkrabílar hafa flutt slasaða borgara frá Gasasvæðinu yfir til Egyptalands í vikunni. Hamas-hryðjuverkasamtökin hafa stöðvað fólksflutning í gegnum Rafah-landamærastöðina eftir að særðum Palestínumönnum var neitað um að komast yfir landamærin. AFP

Hryðjuverkasamtökin Hamas hafa stöðvað flutning almennra ríkisborgara með erlend vegabréf eða tvöfalt ríkisfang frá Gasasvæðinu yfir til Egyptalands um Rafah-landamærastöðina.

Tóku hryðjuverkasamtökin þá ákvörðun eftir að Ísraelsstjórn kom í veg fyrir að stærðir Palestínumenn kæmust yfir landamærin og á spítala í Egyptalandi. 

AFP greinir frá og hefur eftir landamæravörðum við Rafah-landamærastöðina. 

Sagt er að Hamas muni ekki leyfa flutning almennra borgara þar til særðir Palestínumenn fái að fara yfir til Egyptalands á spítala. 

AFP hefur eftir egypskum öryggisverði að engir særðir borgarar hafi fengið að fara yfir landamærin til Egyptalands í dag né nokkur sá með erlent vegabréf.

Sprengdu sjúkrabíl í gær

Sagði hann að hætt hafi verið við flutningana eftir að Ísraelsher sprengdi upp sjúkrabíl sem var á leið með særðan borgara á leið til Egyptalands. Ísraelsher greindi frá aðgerðinni í gær og sagði að sjúkrabíllinn hafi verið notaður af hryðjuverkamönnum innan Hamas. 

Heilbrigðisyfirvöld á Gasa, sem lúta stjórn Hamas-hryðjuverkasamtakanna, segja fimmtán manns hafa látist í sprengingunni og að sextíu hafi særst. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert