Hitnar á ný undir Netanjahú

Benjamín Netanjahú forsætirsráðherra Ísraels.
Benjamín Netanjahú forsætirsráðherra Ísraels. AFP/Jacquelyn Martin

Þúsundir mótmælenda komu saman í Ísrael í dag til þess að mótmæla ríkisstjórn Benjamíns Netanjahús. Segja mótmælendur ríkisstjórnina ekki hafa verið nógu undirbúna þegar Hamas-hryðjuverkasamtökin gerðu árás á Ísrael 7. október síðastliðinn. 

Þá segja mótmælendur ríkisstjórnina ekki hafa beitt sér rétt þegar Hamas-hryðjuverkasamtökin tóku gísla. 

Ísraels segir 1.400 manns hafa látist í árás Hamas og að yfir 240 gíslar hafi verið teknir. Ísraelsstjórn hefur heitið því að uppræta hryðjuverkasamtökin og hafa látið sprengjum rigna yfir Gasasvæðið. Hefur herinn einnig sótt að Gasa á landi og frá sjó.

„Ég er í helvíti“

Á mótmælin í dag mættu meðal annars fjölskyldur gíslanna. Sendi mannfjöldinn ákall til ríkisstjórnarinnar um að bjarga fólkinu sem tekið hefur verið höndum af Hamas. 

„Byrjið á að bjarga þeim öllum. Gerið síðan allt annað til þess að takast á við ástandið,“ sagði hinn 26 ára gamli Or Levi við AFP-fréttastofuna. 

„Ég býst við því, og krefst þess, af minni ríkisstjórn, að hún hugsi út fyrir kassann. Ég er í helvíti. Á hverjum degi vakna ég og það er stríð. Stríð um líf barna minna,“ sagði Hadas Kalderon sem sagði að fimm úr fjölskyldu hans væru á meðal gíslanna sem Hamas tóku. 

Mótmæltu fyrir utan heimili forsætisráðherrans

Í Jerúsalem komu nokkur hundruð manna saman fyrir utan heimili Netanjahús og kölluðu eftir því að hann segði af sér. 

„Við viljum fá að kjósa til að losna við Netanjahú. Ég vona að mótmælin haldi áfram og stækki. Þeir hafa svikið okkur. Það eina sem virkar núna er fólkið,“ sagði hin 39 ára gamla Netta Tzin við AFP. 

Áður en Hamas-hryðjuverkasamtökin gerðu árás á Ísrael hafði Netanjahú sætt mikilli gagnrýni. Á hann yfir höfði sér þrjú dómsmál er varða spillingu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert