Hamas heldur flóttaleiðinni lokaðri

Rafah-landamærastöðin, sem liggur á landamærum Gasa og Egyptalands, er eina …
Rafah-landamærastöðin, sem liggur á landamærum Gasa og Egyptalands, er eina formlega flóttaleiðin frá Gasa sem þykir örugg. AFP

Hamas-stjórnin á Gasa heldur flóttaleiðinni til Egyptalands lokaðri, annan daginn í röð. Ísraelsk og egypsk yfirvöld hafa ekki komið til móts við kröfur Hamas, sem vilja að særðir vígamenn úr eigin röðum geti nýtt flóttaleiðina.

Að sögn egypskra og palestínskra embættismanna hafði Hamas stöðvað brottflutning erlendra ríkisborgara til Egyptalands í gær eftir að Ísraelar neituðu að leyfa „sumum“ særðum Palestínumönnum að vera fluttir á brott.

„Flóttaleiðin er lokuð vegna þess að Ísrael bannar sumum í hópi þeirra særðu að fara til Egyptalands og fá þar aðhlynningu,“ sagði heimildarmaður innan Hamas-stjórnarinnar á Gasa við fréttastofu AFP gegn nafnleynd.

„Engir útlendingar fá að fara svo lengi sem hinir særðu eru strandaglópar,“ á Gasa, bætti heimildarmaðurinn við.

Embættismaður á egypsku hlið Rafah-landamærahliðsins staðfesti við AFP að flóttaleiðin hefði verið lokuð í dag.

Fyrir helgi hafði háttsettur bandarískur embættismaður sagt að tilraunir til að koma erlendum ríkisborgurum frá Gasa hefðu verið stöðvaðar. Ástæðan var sú að Hamas hefði reynt að nota flóttaleiðina til að koma eigin særðum vígamönnum á brott í gegnum Rafah.

Samkvæmt heimildum AFP telja Ísraelar og bandamenn þeirra að Hamas …
Samkvæmt heimildum AFP telja Ísraelar og bandamenn þeirra að Hamas noti flóttaleiðina, sem er ætluð saklausum borgurum og erlendum ríkisborgurum, til að flytja eigin vígamenn. AFP

Óásættanlegt

Um þriðjungur særðra Palestínumanna á brottflutningslistanum tilheyrði Hamas, sagði embættismaðurinn. „Þetta var óásættanlegt fyrir Egyptaland, okkur og Ísrael,“ bætti embættismaðurinn við.

Rafah-landamærastöðin, sem liggur á landamærum Gasa og Egyptalands, var fyrst opnuð á miðvikudaginn, eftir að stríð hófst á svæðinu eftir innrás Hamas í Ísrael þann 7. október. Landamærastöðin var fyrst og fremst opnuð í þeim tilgangi að gefa almennum borgurum og erlendum ríkisborgurum færi á að flýja átökin.

Hvíta húsið tilkynnti fyrr í dag að nú þegar hefði tekist að koma fleiri en 300 Bandaríkjamönnum á brott frá Gasasvæðinu, þar sem barátta Ísraels gegn Hamas geisar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert