„Minnir á myrkustu tíma sögunnar“

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins segir að evrópskir gyðingar lifi aftur í ótta.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins segir að evrópskir gyðingar lifi aftur í ótta. AFP/Odd Andersen

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins segir evrópska gyðinga aftur lifa í ótta. Hún fordæmir aukið gyðingahatur í Evrópu í kjölfar átakanna á milli Hamas-samtakanna og Ísraels sem hófust í síðasta mánuði.

„Fjölgun tilfella gyðingahaturs um Evrópu alla hefur náð ótrúlegum hæðum síðustu daga. Minnir þetta á myrkustu tíma sögunnar,“ segir í yfirlýsingu framkvæmdastjórnarinnar.

„Við fordæmum þessa fyrirlitlegu verknaði af hörku. Þeir brjóta í bága við allt sem Evrópa stendur fyrir," segir í yfirlýsingunni.

Hatursglæpum gegn gyðingum fjölgað um 1.350%

Er svo vísað til tilfella gyðingahaturs í Austurríki, Frakklandi, Þýskalandi og Spáni, sem og mótmæli þar sem hatursfull slagorð voru hrópuð um gyðinga.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins segir það nauðsynlegt að berjast gegn gyðingahatri sem og auknu hatri gegn múslimum.

Gyðingahatur hefur aukist um heim allan í kjölfar átakanna á Gasaströndinni. Greindi lögreglan í Lundúnum í Bretlandi frá því í síðasta mánuði að hatursglæpum gegn gyðingum hefði fjölgað um 1.350% frá stríðsbyrjun.

Í gær var kona í Frakklandi stungin og hakakross málaður á hús hennar. Lögreglan segir vel koma til greina að árásin hafi sprottið af gyðingahatri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert