Trump ber vitni í dag

Fyrrverandi Bandaríkjaforsetinn er á vitnaskrá dagsins í máli gegn honum …
Fyrrverandi Bandaríkjaforsetinn er á vitnaskrá dagsins í máli gegn honum og sonum hans. JOE RAEDLE

Fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, er á vitnaskrá í máli, sem höfðað var gegn honum og sonum hans í New York-borg, í dag. Réttarhöld hefjast klukkan tíu að staðartíma, eða klukkan þrjú að íslenskum tíma. 

Letitia James, saksóknari í New York höfðaði mál gegn Trump og sakar þar bæði hann og syni hans um að hafa blásið út virði eigna sinna sem nemi milljörðum bandaríkjadala, í þeim tilgangi að knýja fram betri kjör á lánum og tryggingum. 

„Undir hælnum á Demókrötum“

Trump hefur ekki farið fögrum orðum um dómarann í málinu, Arthur Engoron, og hefur m.a. kallað hann „óheflaðan“ og „Trump-hatandi öfga-vinstrimann undir hælnum á Demókrötum“.

Hefur Engoron þegar sektað Trump tvisvar um annars vegar 5.000 bandaríkjadali og hins vegar 10.000 bandaríkjadali fyrir brot á tjáningarbanni um starfsfólk dómstólsins.

Trump hefur tvísinnis gefið skýrslu utan dómsals og sagði réttahöldin nornaveiðar ætlaðar til þess að grafa undan kosningabaráttu hans i forsetakosningunum á komandi ári. 

Synir Trump, Donald Jr. og Eric, báru vitni í síðustu …
Synir Trump, Donald Jr. og Eric, báru vitni í síðustu viku. AFP

Endurskoðendur beri ábyrgð

Synir Trump, Donald Jr. og Eric, báru vitni í málinu í síðustu viku og báru fyrir sig að endurskoðendur fjölskyldunnar bæru ábyrgð á ofmatinu og er búist við því að fyrrverandi forsetinn muni halda því sama fram. 

Ekki eiga feðgarnir á hættu að hljóta fangelsisdóm verði þeir fundir sekir í málinu, en eiga yfir höfði sér allt að 250 milljóna dala sekt, eða rúmlega 34 milljarða íslenskra króna. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert