Grunaður um víg tveggja drengja

Sjö manns liggja undir grun vegna vígs tveggja 14 ára …
Sjö manns liggja undir grun vegna vígs tveggja 14 ára gamalla pilta í Stokkhólmi og hefur einn þeirra nú verið úrskurðaður í gæsluvarðhald þrátt fyrir að vera fjarstaddur. AFP

Lögreglan í sænsku höfuðborginni Stokkhólmi hefur úrskurðað mann á fertugsaldri í gæsluvarðhald vegna gruns um að hann beri ábyrgð á voveiflegum dauða tveggja 14 ára pilta, þeirra Mohamed og Layth, sem fundust örendir á tveimur mismunandi stöðum í skóglendi í Stokkhólmi í sumar, annars vegar í Nynäshamn og hins vegar í Upplands-Bro.

Lögregla komst fljótlega að þeirri niðurstöðu að víg piltanna tengdust og miðaðist rannsóknin við það að sögn Hönnu Cardell saksóknara.

Mohamed var vistaður á heimili í Nyköping fyrir ungmenni á refilstigu en var í leyfi og í heimsókn hjá fjölskyldu sinni í Nässjö helgina sem hann hvarf í júlí. Sunnudagskvöldið 23. júlí tók hann lest til baka á vistheimilið og ræddi við móður sína í síma daginn eftir. Var það síðasta samtal þeirra mæðgina þar sem hún heyrði ekki meira í syni sínum, náði ekki símasambandi við hann daginn eftir. Síðan heyrðist ekkert af örlögum hans fyrr en lögreglan tilkynnti um að lík hans hefði fundist laugardaginn eftir.

Úrskurðaður in absentia

Hinn drengurinn, Layth, fannst svo um mánuði síðar, seint í ágúst, en hann hafði einnig horfið frá vistheimili eins og því sem Mohamed bjó á.

Sá sem nú hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald er grunaður um bæði manndrápin auk mannráns en sá hængur er þó á að grunaði hefur ekki verið handtekinn heldur var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald in absentia, það er að honum fjarstöddum, en lögreglu grunar að maðurinn haldi sig erlendis. Þetta byggir sænska ríkisútvarpið SVT einnig á heimildum frá saksóknaranum Cardell.

Einnig greinir saksóknari frá því að grunaði tengist glæpasamtökum en auk þess sem nú hlaut úrskurðinn hafa sex legið undir grun um að tengjast drápi piltanna. Þrír á aldrinum 15, 17 og 25 ára eru grunaðir um að hafa komið að máli Layth en hinir þrír eru grunaðir um mannrán í Nynäshamnsärendet.

SVT

SVT (hvarf Mohameds)

SVT (hvarf af unglingaheimili)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert