G7 ríkin kalla eftir mannúðarhléi

Utanríkisráðherrar helstu G7 ríkjanna tilkynntu í dag að þeir væru einróma um sameinaða afstöðu til stríðsins á milli Ísraels og Hamas. 

Ráðherrarnir komu saman á fundi í Tókýó í Japan í dag og ítrekuðu óbilandi stuðning við Úkraínu og kalla eftir mannúðarhléi í sprengjuárásum Ísraela til að koma hjálpargögnum til Palestínumanna.

Fordæmdu ofbeldi öfgafullra landnema gegn Palestínumönnum

Í sameiginlegri tilkynningu fordæmdu fulltrúarnir Hamas-samtökin og studdu rétt Ísraelríkis til sjálfsvarnar en kölluðu eftir mannúðarhléum fyrir óbreytta borgara í Palestínu, sem sárlega þarfnist matvæla, vatns, skjóls og læknishjálpar. 

Einnig fordæmdu löndin „aukningu á ofbeldi öfgafullra landnema gegn Palestínumönnum“ sem utanríkisráðherrarnir sögðu óásættanlegt, grafa undan öryggi á Vesturbakkanum og ógna framtíðarhorfum um varanlegan frið á svæðinu. 

Skoraði tilkynningin einnig á Íran að veita ekki Hamas stuðning og grípa til frekari aðgerða sem valda óstöðugleika í Miðausturlöndum, þar á meðal stuðning við líbönsku samtökin Hezbollah. Var Íran þá frekar hvatt til að beita sér til að auka stöðugleika á svæðinu.

Netjanhú segir ekkert verða af vopnahléi

Ísraelsmenn hafa látið látlausar sprengur hrynja yfir Gasasvæðið síðan 7. október, eftir árás vígamanna Hamas á Ísrael þar sem 1.400 Ísraelsmenn létu lífið, flestir þeirra óbreyttir borgarar, samkvæmt upplýsingum frá Ísrael.

Heilbrigðisráðuneytið í Gasa, sem er undir ráðaríkjum Hamas, segja yfir 10.300 Palestínumenn hafa látið lífið í átökunum.

Forsætisráðherra  Ísraels, Benjamín Netanjahú, segir að ekkert verði af vopnahléi fyrr en Hamas-samtökin hafi sleppt þeim 240 ísraelsku gíslum sem þau hafa tekið höndum. Sagði hann einnig að Ísrael hygðist taka yfir öryggisgæslu í Gasa að stríðinu loknu.

Utanríkisráðherrar G7 ríkjanna kveðast einróma um sameinaða afstöðu til stríðsins …
Utanríkisráðherrar G7 ríkjanna kveðast einróma um sameinaða afstöðu til stríðsins á milli Ísraels og Hamas. AFP

Hvetja Ísraelsmenn til að hernema ekki Gasa að nýju

Anthony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði Bandaríkin andvíg nýju „lengri tíma landnámi“ Ísraelsríki á Gasasvæðinu og að varanlegur friður og öryggi „ættu ekki að fela í sér nauðungarflutninga Palestínumanna frá Gasa, ekki núna og ekki eftir stríðið“.

Sagði Blinken að Gasa ætti ekki að nota sem vettvang hryðjuverka og ofbeldisfullra árása og hvatti Ísraelsmenn sömuleiðis til að hernema ekki Gasa að nýju eftir stríðið.

Anthony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Anthony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka