Stríðsglæpur að ráðast kerfisbundið á íbúðahúsnæði

Fáni Ísraels sést dreginn að hún í sunnanverðu landinu. Hinu …
Fáni Ísraels sést dreginn að hún í sunnanverðu landinu. Hinu megin við landamærin má sjá reyk rísa frá Gasaströndinni eftir spengjuárás Ísraelsmanna. AFP

Víðtækar og kerfisbundnar sprengjuárásir á vegum Ísraelshers á íbúðahúsnæði og aðra innviði á Gasa og sprengjuárásir Hamas-hryðjuverkasamtakanna á heimili Ísraelsmanna eru stríðglæpur, að sögn sjálfstæðs sérfræðings Sameinuðu þjóðanna (SÞ).

Nú er mánuður liðinn af stríðinu fyrir botni Miðjarðarhafs. Að sögn Balakrishnan Rajagopal, sem er sérstakur skýrslugjafi SÞ í réttinum til öruggs húsnæðis, hefur ísraelski herinn lagt 45% af íbúðahúsnæði á Gasaströndinni í rúst. Hann varar við því að eyðileggingunni fylgi „geysilegt mannsfall“.

„Að framkvæma árás, fullmeðvitaður um að það eyðileggi og skaði húsnæði borgara og innviði, og gera þannig heila borg – líkt og Gasaborg – óbyggilega, er stríðsglæpur,“ sagði hann og bætti við að þegar slíkum árásum er beint að borgurum teljist það líka með sem „glæpir gegn mannkyninu“.

Hann ítrekaði einnig að íbúðahúsnæði í Ísrael væru heldur ekki hernaðarmannvirki og sagði að óvandlátar sprengjuárásir Hamas-liða á Ísrael teldust einnig til stríðsglæpa.

Blygðunarlaust brot á alþjóðalögum

Heil­brigðis­yf­ir­völd á Gasa, sem lúta stjórn Hamas-hryðjuverkasamtakanna, greindu frá því í dag að tala lát­inna í stríðinu sé kom­in í 10.569. Af þeim eru 4.324 börn og 2.823 kon­ur. Þá eru rúm­lega 26 þúsund manns særðir frá því átök­in brut­ust út þann 7. októ­ber, eftir að Hamas-vígamenn drápu um 1.400 Ísrael og tóku 240 í gíslingu að sögn yfirvalda í Ísrael.

SÞ telur að um ein og hálf milljón manns séu á vergangi á Gasa en yfirvöld í Ísrael hafa skipað íbúum á norðanverðri Gasaströnd að rýma svæðið.

Rajagopal segir að fyrirskipun Ísraelsmanna til rýmingar, þrátt fyrir að ekki sé nægt skjól fyrir þá sem þurfa flýja, og að Ísrael hafi lokað fyrir vatn á svæðinu auk þess sem það hefur varpað sprengjum á rýmingarleiðir á Gasa, sé „grimmt og blygðunarlaust brot á alþjóðamannúðarlögum“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka