Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, hefur heitið því að vernda gyðinga í Þýskalandi gagnvart aukinni gyðingaandúð í kjölfar átakanna fyrir botni Miðjarðarhafs.
„Þetta snýst um að efna loforðið sem hefur verið gefið aftur og aftur áratugina síðan 1945…loforðið „aldrei aftur”,” sagði Scholz í bænahúsi í Berlín þangað sem tveimur bensínsprengjum var varpað í síðasta mánuði.
Ræðan var haldin í tilefni þess að 85 ár eru liðin frá kristalnóttinni svokölluðu árið 1938 þegar nasistar myrtu að minnsta kosti 90 gyðinga og kveiktu í 1.400 bænahúsum þeirra víðsvegar um Þýskaland og Austurríki. Einnig eyðilögðu þeir verslanir og önnur fyrirtæki í eigu gyðinga. Alls myrtu nasistar sex milljónir gyðinga í Evrópu í síðari heimsstyrjöldinni.
Scholz sagði aukna gyðingaandúð í Þýskalandi vera „skammarlega” fyrir landið.
Síðan hryðjuverkamenn úr röðum Hamas drápu 1.400 manns í Ísrael að sögn Ísraelshers, flesta almenna borgara, hafa um tvö þúsund atvik tengd gyðingaandúð og deilu Ísraels og Hamas verið skráð í Þýskalandi.
Ísraelsher hefur drepið yfir 10.500 manns á Gasasvæðinu, flesta almenna borgara, að sögn Hamas.
Í október síðastliðnum köstuðu tveir menn bensínsprengjum á bænahús gyðinga, Beth Zion, í Berlín. Engan sakaði en margir gyðingar í höfuðborg Þýskalands sátu eftir skelkaðir.