Hafnaði tilboði um vopnahlé

Netanjahú forsætisráðherra hafnaði samkomulagi um fimm daga vopnahlé á Gasa …
Netanjahú forsætisráðherra hafnaði samkomulagi um fimm daga vopnahlé á Gasa gegn lausn einhverra þeirra gísla sem Hamas-samtökin hafa í haldi. AFP/Jack Guez

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, hafnaði tilboði um fimm daga vopnahlé í væringum Ísraels- og Palestínumanna á Gasasvæðinu í skiptum fyrir lausn sumra þeirra ísraelsku gísla sem Hamas-samtökin hafa þar í haldi og voru numdir á brott frá Ísrael í leifturárás Hamas-liða í byrjun október.

Þetta hefur breska blaðið The Guardian eftir heimildarmönnum sem þekkja vel til samningaviðræðnanna en þeir hafa enn fremur látið það uppi að höfnun forsætisráðherrans sé ekki ný af nálinni, hana hafi hann lagt fram í einum af fyrstu samningaviðræðunum eftir að Hamas-liðar tóku ísraelsku borgarana í gíslingu fyrir rúmum mánuði.

Samningaviðræðurnar eru svo sagðar hafa haldið áfram nokkru síðar, undir mánaðamótin síðustu, en heimildarmennirnir segja einnig frá því að Netanjahú hafi markað sér eindregna stefnu gegn tilboðum sem fela í sér að Ísraelsmenn fallist á ákveðinn dagafjölda í vopnahlé gegn lausn gísla.

Almenningur og ættingjar mótmæla

Aðrar heimildir herma hins vegar að í samningaviðræðum, sem áttu sér stað fyrir innrás Hamas í október og sneru því ekki að henni og eftirmálum hennar, hafi Hamas-liðar hreyft því að sleppa tugum erlendra ríkisborgara úr haldi sem verið hafa í haldi Hamas á Gasasvæðinu.

Skrifstofa ísraelska forsætisráðuneytisins hefur ekki svarað fyrirspurnum The Guardian um samningaviðræðurnar en talið er að Hamas-liðar hafi haft á brott með sér um 240 manns frá Ísrael í kjölfar árásarinnar í október. Hefur ísraelskur almenningur látið óánægju sína í ljós með framgöngu stjórnvalda landsins í gíslatökumálinu og ættingjar gíslanna mótmælt við embættisbústað Netanjahús.

Þrír heimildarmenn The Guardian greina frá því að upphaflegt tilboð hafi snúist um að sleppa konum, börnum, eldri borgurum og sjúkum úr haldi Hamas gegn fimm daga vopnahléi en því hafi Ísraelsstjórn hafnað.

Samkomulag um aukna neyðaraðstoð efst á baugi

Stjórnvöld í Katar hafa milligöngu í óbeinum samningaumleitunum milli Ísraels og Hamas þar sem samningsaðilarnir ræða ekki saman sjálfir heldur gegnum milligöngumenn. Markmið þeirra í samningamálum er eins til þriggja daga vopnahlé gegn lausn tíu til fimmtán gísla.

Í viðræðum við fréttastofuna Associated Press greindu embættismenn frá Egyptalandi og Sameinuðu þjóðunum og sendierindreki frá Vesturlöndum frá því að það samkomulag sem nú væri uppi á borðum gerði ráð fyrir aukinni neyðaraðstoð fyrir borgara Gasasvæðisins, svo sem eldsneyti í takmörkuðu magni sem heimilt yrði að flytja inn á Gasasvæðið en Ísraelsher lokaði að mestu leyti á flutning matar, vatns og neyðargagna fáeinum dögum eftir innrás Hamas-liða.

Hingað til hafa viðræður milli Ísraels og Hamas skilað lausn fjögurra kvenna, tveggja bandarískra rikisborgara og tveggja ísraelskra, 20. og 24. október, en egypska sjónvarpsstöðin Al Qahera greinir frá því að þarlendir samningamenn nálguðust nú samkomulag sem gerði ráð fyrir „mannúðarvopnahléi“ á Gasasvæðinu auk skipta á föngum.

Í ykkar verkahring að tryggja lausn gíslanna

„Við höfum heyrt fjölda kviksagna síðustu 30 dagana. Við höfum sætt sálrænum pyntingum í 34 daga. Sögurnar koma og fara,“ segir Noam Sagi, sonur hinnar 75 ára gömlu Ödu Sagi sem er í haldi Hamas-samtakanna. „Við ætlumst til þess af öllum hlutaðeigandi að þeir geri það að forgangsverkefni að koma öllum gíslunum heim núna. Það er númer eitt,“ bætir hann við.

Fregnir af hugsanlegu vopnahléi eru að sögn Yehuda Beinin mjög óljósar en Liat, 49 ára gömul dóttir hans, og tengdasonurinn Aviv á sama aldri voru numin á brott í árás Hamas.

„Það sem við viljum segja við ríkisstjórn Ísraels er eftirfarandi: Það er í ykkar verkahring að tryggja lausn gíslanna. Hvernig þið farið að því er ykkar mál.“ Beinin segir sér ekki finnast mánuður vera liðinn frá brottnámi ástvina sinna. „Ég ber ekkert skynbragð á þennan tíma. Þetta er allt í þoku og allt mjög óraunverulegt, mjög taugatrekkjandi. [...] Sálfræðilega og tilfinningalega einbeiti ég mér að því að gera allt sem í mínu valdi stendur til að fá dóttur mína og mann hennar laus úr haldi. Öll mín orka fer í það,“ segir hann.

The Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert