Akkeri sem er talið hafa valdið tjóni á gasleiðslu á milli Eistlands og Finnlands tilheyrir líklegast kínversku skipi, að sögn lögreglunnar í Finnlandi.
Greint var frá því í október að lögreglan í Finnlandi hefði grunað að kínverska flutningaskipið Newnew Polar Bear, sem siglir undir flaggi Hong Kong, tengdist skemmdarverkunum sem unnin voru á gasleiðslunni. Eftir að þrýstingur í gasleiðslunni féll var henni lokað hinn 8. október.
„Á þessu stigi getum við sagt að akkeri sem var lyft úr sjónum þann 24. október 2023 gæti tæknilega séð tilheyrt Newnew Polar Bear,“ sagði Risto Lohi, aðstoðaryfirlögregluþjónn rannsóknardeildar finnsku lögreglunnar, í tilkynningunni.
Lohi bætti við að sama tegund af málningu hefði einnig fundist á gasleiðslunni. Þá hefði lögreglan haft samband við yfirvöld í Kína til þess að óska eftir aðstoð við að leiða málið til lykta.
Auk gasleiðslunnar urðu einnig skemmdir á fjarskiptastreng á milli Finnlands og Eistlands sem lá skammt hjá leiðslunni.
Skömmu eftir skemmdarverkin á gasleiðslunni komu upp skemmdir á fjarskiptastreng sem liggur milli Svíþjóðar og Eistlands í Eystrasalti, og eru sænsk stjórnvöld með málið til rannsóknar. Er ekki talið útilokað að sama flutningaskip hafi einnig komið þar að.
Á síðasta ári voru skemmdarverk unnin á Nord Stream 2 gasleiðslunum sem liggja milli Rússlands og Þýskalands í Eystrasalti. Enn er óvisst hverjir hafi verið þar að verki, en bæði Rússar og Úkraínumenn hafa verið sakaðir um verknaðinn.