Akkeri flutningaskips olli líklegast skemmdunum

Skemmdarverk var unnið á gasleiðslu milli Finnlands og Eistlands í …
Skemmdarverk var unnið á gasleiðslu milli Finnlands og Eistlands í október. Lögereglan í Finnlandi grunar að við kínverskt skip sé að sakast. AFP

Akkeri sem er talið hafa valdið tjóni á gasleiðslu á milli Eist­lands og Finn­lands tilheyrir líklegast kínversku skipi, að sögn lögreglunnar í Finnlandi.

Greint var frá því í október að lögreglan í Finnlandi hefði grunað að kínverska flutningaskipið New­new Pol­ar Bear, sem sigl­ir und­ir flaggi Hong Kong, tengdist skemmdarverkun­um sem unn­in voru á gas­leiðslunni. Eft­ir að þrýst­ing­ur í gas­leiðslunni féll var henni lokað hinn 8. októ­ber.

Af blaðamannafundi í október, þegar akkerið var sótt af hafsbotninum. …
Af blaðamannafundi í október, þegar akkerið var sótt af hafsbotninum. Skipið Newnew Polar Bear er talið hafa valdið skemmdunum á gasleiðslunni. AFP

Eins málning fannst á gasleiðslunni

„Á þessu stigi getum við sagt að akkeri sem var lyft úr sjónum þann 24. október 2023 gæti tæknilega séð tilheyrt Newnew Polar Bear,“ sagði Risto Lohi, aðstoðaryfirlögregluþjónn rann­sókn­ar­deildar finnsku lögreglunnar, í til­kynn­ing­unni.

Lohi bætti við að sama tegund af málningu hefði einnig fundist á gasleiðslunni. Þá hefði lögreglan haft samband við yfirvöld í Kína til þess að óska eftir aðstoð við að leiða málið til lykta.

Auk gasleiðslunnar urðu einnig skemmdir á fjarskiptastreng á milli Finnlands og Eistlands sem lá skammt hjá leiðslunni. 

Skemmd­ar­verk unn­in á fjar­skipt­a­streng

Skömmu eftir skemmdarverkin á gasleiðslunni komu upp skemmdir á fjar­skipt­a­streng sem ligg­ur milli Svíþjóðar og Eist­lands í Eystra­salti, og eru sænsk stjórnvöld með málið til rannsóknar. Er ekki talið útilokað að sama flutningaskip hafi einnig komið þar að.

Á síðasta ári voru skemmd­ar­verk unn­in á Nord Stream 2 gasleiðslunum sem liggja milli Rússlands og Þýskalands í Eystrasalti. Enn er óvisst hverjir hafi verið þar að verki, en bæði Rússar og Úkraínumenn hafa verið sakaðir um verknaðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert