Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, hefur samþykkt tímabundið vopnahlé til að hleypa óbreyttum borgurum af átakasvæðum í norðuhluta Gasaborgar og yfir í suðurhluta hennar.
Forsætisráðherrann útilokar víðtækara vopnahlé sem hann segir uppgjöf gagnvart hryðjuverkasamtökunum Hamas.
„Varanlegt vopnahlé er uppgjöf gagnvart hryðjuverkasamtökunum. Það verður ekkert vopnahlé án þess að ísraelskum gíslum verði sleppt úr haldi. Það er ekki að fara að gerast,“ sagði Netanjahú í samtali við bandaríksu fréttastofuna Fox.
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, fagnar tímabundnu vopnahléi að því tagi sem þegar hefur gert tugþúsundum óbreyttra borgara kleift að flýja hörmungarnar í norðuhluta Gasaborgar. Biden hefur einnig sagt að það sé enginn möguleiki á víðtækara vopnahléi að svo komnu.
Yfir 10.800 eru fallnir á Gasasvæðinu frá því að Ísraelsher hóf loftárásir á svæðið og síðar landhernað ef marka má tölur frá heilbrigðisráðuneytinu á Gasasvæðinu sem einhverjir hafa véfengt en hryðjuverkasamtökin Hamas stýra öllu á svæðinu meðal annars heilbrigðisráðuneytinu.
Netanjahú segir að það sé ekki markmið Ísraels að hernema Gasasvæðið í lengri tíma. Hann segir markmiðið vera að uppræta Hamas og færa borgurum bjartari framtíð.
Tölur frá Sameinuðu þjóðunum segja að um 70 þúsund manns hafi flúið suður frá norðurhlutanum og frá upphafi átakanna hafi 1,6 milljón manna yfirgefið borgina. Samt sem áður séu hundruðir þúsunda óbreyttra borgara enn í norðurhluta Gasaborgar.