Joe Biden Bandaríkjaforseti og Xi Jinping, forseti Kína, munu funda í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum til þess að „koma á jafnvægi“ í sambandinu á milli stórveldanna tveggja, sem hefur verið spennuþrungið á síðustu árum.
Frá þessu greina bandarísk stjórnvöld, sem segja þó einnig að ekki sé búist við umtalsverðum niðurstöðum af fundinum. Frekar sé hann haldinn til þess að forðast átök á milli Bandaríkjanna og Kína.
Biden og Xi, starfsbræður sitt hvorum megin við Kyrrahafið, munu einnig ræða alþjóðamálefni, þar á meðal innrás Rússlands í Úkraínu, stríðið fyrir botni Miðjarðarhafs og Taívan.
Forsetanir hafa ekki rætt saman augliti til auglits í ár en seinast lágu leiðir þeirra saman í Balí í nóvember í fyrra. Síðan þá hafa samskipti á milli þjóðanna farið hnignandi.
„Biden forseti mun vissulega hitta Xi Jinping, forseta Alþýðulýðveldisins Kína, á San Francisco-svæðinu í Kaliforníuríki þann 15. nóvember,“ sagði háttsettur ríkisstarfsmaður Bandaríkjanna við fjölmiðla í gær, sem vildi þó ekki að nafn síns yrði getið.
Hinn áttræði Biden og hinn sjötugi Xi sækja báðir leiðtogafund efnahagssamvinnu Asíu- og Kyrrahafsríkja, en ekki er víst hvort starfsbræðurnir ætli sér að funda í sjálfri San Francisco-borg.
„Okkar markmið er að reyna að taka skref sem eiga að koma á jafnvægi í sambandinu á milli Bandaríkjanna og Kína, koma í veg fyrir misskilning þjóðanna og opna nýjar leiðir til frekari samskipta,“ sagði ríkisstarfsmaðurinn.
„Við erum í samkeppni við Kína, en við ætlum ekki að leitast eftir neinum árekstri eða nýju köldu stríði. Við viljum hafa skynsamlegt taumhald á samkeppninni.“
Stjórnvöld í Peking hafa ekki staðfest að fundurinn verði haldinn.