Rannsaka mörg gróf kynferðisbrot

Vopnaður Hamas-liði á tónlistarhátíðinni þar sem hundruð manns voru drepnir …
Vopnaður Hamas-liði á tónlistarhátíðinni þar sem hundruð manns voru drepnir og konum nauðgað, samkvæmt myndböndum og vitnum. AFP

David Katz, yfirmaður Lahav 443-rannsóknardeildar lögreglunnar í Ísrael, segir útlit fyrir að rannsókn á meintum kynferðisbrotum hryðjuverkamanna Hamas-samtakanna þann 7. október síðastliðinn muni taka langan tíma.

Rannsóknin beinist að ásökunum sem ná yfir allt frá hópnauðgunum til limlestinga á líkum. Hefur lögreglan starfað óslitið frá hryðjuverkunum 7. október við að safna sönnunargögnum um kynferðisofbeldi og eru það m.a. vitnisburðir, eftirlitsmyndbönd, myndbönd úr búkmyndavélum sem Hamas-liðar voru með á sér og yfirheyrslur yfir hryðjuverkamönnum, sem handteknir voru í kjölfarið á árásinni.

Fórnarlömbin ekki á lífi til að segja frá

„Við höfum engin lifandi fórnarlömb sem sögðu „okkur var nauðgað,“ sagði Katz á blaðamannafundi í dag, en bætti við að mörg vitni væru til staðar í nokkrum málum. Hann gaf ekki upp nákvæma tölu um fjölda þeirra mála sem eru til rannsóknar lögreglu en Katz sagði að rannsóknin gæti tekið sex til átta mánuði.

Á mynd sem lögreglan birti af vettvangi fjöldamorðs á tónlistarhátíð í Ísrael mátti m.a. sjá lík konu sem var nakið frá mitti og niður. Sést að hún liggur á bakinu með útbreidda fætur og voru brunasár á útlimum hennar. 

Önnur mynd sýnir nakta konu með útbreidda fætur og nærbuxurnar girtar niður.

Hópnauðgað og svo tekin af lífi

Lögreglan sýndi blaðamönnum einnig á þriðjudag upptöku af viðtali við unga konu sem lifði af árásina á tónlistarhátíðina, en hún varð vitni að annarri konu sem var hópnauðgað og svo myrt.

„Þeir beygðu hana og ég áttaði mig á því að þeir voru að nauðga henni, einn af öðrum. Síðan komu þeir henni til manns í einkennisbúningi. Hún var á lífi. Standandi með blóð aftan á sér. Þeir héldu í hárið á henni. Einn maður skaut hana í höfuðið þegar hann var að nauðga henni, á meðan hann var með buxurnar niðri,“ sagði hún við lögregluna og bætti við að maðurinn sem skaut hana hafi einnig skorið af henni annað brjóstið áður en hann myrti hana.

Skotsár á kynfærum

„Langflest fórnarlömb nauðgunar og annarra kynferðisbrota þann 7. október, þar á meðal kynfæralimlestingar, voru myrt og munu aldrei geta borið vitni um það sem var gert við þau,“ sagði Cochav Elkayam Levy, yfirmaður glæpanefndar þingsins sem rannsakar glæpi gegn konum í árás Hamas.

Nokkrum dögum eftir hryðjuverkaárásina töluðu sjálfboðaliðar ZAKA, sem endurheimta líkamsleifar í samræmi við trúarlög gyðinga til að veita þeim rétta greftrun, um gögn sem benda einnig til þess að Hamas-liðar hafi nauðgað konum.

Í Shurastöðinni, sem greinir líkamsleifar til að auðkenna fórnarlömb, sagði Alon Oz, sem sér um að bera kennsl á líkamsleifar, við AFP að hann hefði séð vísbendingar um að konur hafi verið brenndar með hendur og fætur bundnar.

„Ég sá skotsár á kynfærum, fjölda skotsára – skot til að taka fólk af lífi – týnt höfuð og týnda útlimi,“ sagði hann við AFP og bætti því við að karlmenn hafi einnig hlotið svipaða áverka.

Birgir hefur sömu sögu að segja

Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var í Ísrael fyrir um viku síðan og fékk að sjá upptöku af hryðjuverkaárásunum ásamt öðrum Evrópuþingmönnum. Auk þess fór hann ásamt þinghópnum á samyrkjubú sem Hamas-liðar réðust einnig á. Í viðtali við Morgunblaðið í síðustu viku lýsti hann því meðal annars svona:

„Þeir drápu alla sem á vegi þeirra urðu. Kon­ur, ung­börn og eldra fólk. Brenndu fjöl­skyld­ur lif­andi, pyntuðu, aflimuðu. Drógu kon­ur á hár­inu, nauðguðu og drápu, ým­ist með byssu­skot­um eða stór­um hníf­um. Þeir af­höfðuðu ung­barn og hef­ur höfuð þess ekki fund­ist.

Eft­ir eina klukku­stund lágu 52 í valn­um og 20 er saknað. Við geng­um um þetta litla bæj­ar­fé­lag og sáum vett­vang hömlu­lausr­ar illsku, vett­vang þar sem dauðinn vof­ir yfir öllu. Storknaðir blóðpoll­ar í barna­rúm­um. Sund­ur­skot­in hús og brennd. Vett­vang sem vart er hægt að lýsa sök­um hryll­ings. Þetta var vett­vang­ur þar sem fugl­ar him­ins­ins flúðu burt,“ sagði Birg­ir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert