Forstjóri stærsta sjúkrahúss Gasaborgar segir að 179 manns, þar á meðal börn og sjúklingar sem létust á gjörgæsludeildinni, hafi verið grafin í „fjöldagröf” á svæðinu.
„Við neyddumst til að grafa þau í fjöldagröf,” sagði Mohammad Abu Salmiyah, forstjóri sjúkrahússins Al-Shifa.
Hann bætti við að sjö börn og 29 sjúklingar af gjörgæslu hefðu verið á meðal þeirra sem voru grafin eftir að eldsneytisbirgðir sjúkrahússins kláruðust.
Mikil átök hafa geisað á milli Ísraelshers og liðsmanna Hamas í nágrenni sjúkrahússins.
Sameinuðu þjóðirnar telja að þúsundir og jafnvel fleiri en tíu þúsund manns, þar af sjúklingar, starfsfólk og aðrir á flótta, haldi til á sjúkrahúsinu og komist ekki út vegna átakanna.