Ísraelsher hóf í nótt hernaðaraðgerð á Al-Shifa-sjúkrahúsinu á Gasa. Er yfirlýst markmið aðgerðarinnar að sigra hryðjuverkasamtökin Hamas og bjarga gíslum.
Frá þessu greinir herinn sjálfur í færslu á miðlinum X en þar segir m.a. að IDF ætli að „framkvæma nákvæma og markvissa aðgerð á tilteknu svæði á Al-Shifa-sjúkrahúsinu“.
Al-shifa er stærsta sjúkrahús Gasaborgar.
Sameinuðu þjóðirnar telja að þúsundir og jafnvel fleiri en tíu þúsund manns, þar af sjúklingar, starfsfólk og aðrir á flótta, haldi til á sjúkrahúsinu.
„IDF hefur rýmt sjúkrahúsið og verið í reglulegum samskiptum við stjórnendur sjúkrahússins,“ segir í færslu IDF á X.
„Ég sá sex skriðdreka við sjúkrahúsið og yfir hundrað hermenn. Þeir komu inn á slysadeildina, sumir hermenn voru með grímu og öskruðu á arabísku „ekki hreyfa ykkur, ekki hreyfa ykkur“,“ er haft eftir Khader Al Za'anoun, sjónarvotti á spítalanum, í umfjöllun BBC.
Khaled Abu Samra, læknir á sjúkrahúsinu, sagði við CNN að IDF hefði varað við „aðgerðinni“ hálftíma áður en hún hófst.
„Við vorum beðin um að halda okkur frá gluggum og svölum. Við heyrum í brynvörðum ökutækjum. Þau eru mjög nálægt inngangi sjúkrahússins,“ sagði Samra.
Joe Biden Bandaríkjaforseti og Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, ræddu saman í síma fyrr í kvöld. Í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu, þar sem greint er frá símtalinu, er ekki minnst á atlöguna að spítalanum.
Biden sagði fyrr á þriðjudag að mikilvægt væri að vernda sjúkrahúsið.
Ísraelsk og bandarísk stjórnvöld hafa haldið því fram að stjórnstöð Hamas sé undir sjúkrahúsinu. Hamas og stjórnendur sjúkrahússins hafa vísað ásökunum á bug.
Uppfært klukkan 3.08:
Talsmaður Hvíta hússins, sem kýs að koma ekki fram undir nafni, segir bandarísk stjórnvöld hvorki styðja loftárásir á sjúkrahúsið né átök innan veggja þess. „[Þ]ar sem saklaust fólk, bjargarlaust fólk, sjúklingar sem reyna að fá þá læknisaðstoð, geta særst í átökunum.“
Þá ítrekaði talsmaðurinn ummæli Bidens um að mikilvægt væri að vernda bæði sjúkrahúsið og sjúklingana.
Í yfirlýsingu Hamas kenna hryðjuverkasamtökin bæði Ísrael og Bandaríkjunum um hernaðaraðgerð IDF. Með því að segja að stjórnstöð Hamas sé undir sjúkrahúsinu hafi bandarísk stjórnvöld gefið IDF „grænt ljós“ á að „fremja fleiri fjöldamorð á borgurum“.
Þá kemur einnig fram að hernaðaraðgerðin sé til marks um að Sameinuðu þjóðunum hafi mistekist að verja Palestínumenn.